Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár sem ferðast til útlanda í sumarfríinu. Nær 62% ferðuðust til útlanda í sumar en þegar fyrst var spurt fyrir átta árum hafði aðeins þriðjungur Íslendinga ferðast til útlanda um sumarið.
Ferðaðist þú eitthvað til útlanda í sumar?
Íbúar höfuðborgarsvæðisins ferðuðust frekar til útlanda í sumar en íbúar landsbyggðarinnar. Fólk sem hefur lokið framhalds- eða háskólaprófi ferðaðist einnig frekar til útlanda en fólk sem hefur ekki framhaldsmenntun að baki. Loks er fólk líklegra til að hafa ferðast til útlanda í sumar eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur. Sú undantekning er þó á, að hópurinn með lægstu fjölskyldutekjurnar er einnig nokkuð líklegur til að hafa farið til útlanda, en sú hefur ekki verið raunin í fyrri mælingum.
Rúmlega 69% Íslendinga ferðuðust innanlands í sumar. Færri landsmenn ferðuðust innanlands síðustu fjögur sumur en sumrin 2010 – 2012.
Ferðaðist þú eitthvað innanlands í sumar?
Fólk með háskólapróf er líklegra til að hafa ferðast innanlands í sumar en þeir sem hafa ekki lokið háskólaprófi.
Þeir sem ferðuðust til útlanda í sumar gistu hver samtals 14 nætur að meðaltali á ferðalögum sínum og er það aðeins meira en í fyrra þegar meðaltalið var tæplega 13 nætur. Þeir sem ferðuðust innanlands gistu hver samtals rúmlega 8 nætur að meðaltali.
Meðalfjöldi gistinátta
Spurt var:
- Ferðaðist þú eitthvað til útlanda í sumar?
- Ferðaðist þú eitthvað innanlands í sumar?
- Hversu margar nætur gistir þú samtals í útlöndum í sumar?
- Hversu margar nætur gistir þú samtals á ferðalögum þínum innanlands í sumar?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 20. september - 2. október 2018. Heildarúrtaksstærð var 1.423 Íslendingar 18 ára og eldri og þátttökuhlutfall var 56%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.