Í upphafi árs gerði Gallup könnun á vefverslun Íslendinga og kynnti Heiður Hrund Jónsdóttir, sérfræðingur Gallup, niðurstöðurnar á ráðstefnu Já og Valitor um vefverslun á dögunum. Markmið könnunarinnar var að svara spurningum eins og hverjir eru að versla á netinu og hvers vegna? Hvaða vörur er fólk helst að versla og hvernig eru framtíðarhorfur íslenskrar vefverslunar?
Helstu fréttirnar að mati Heiðar eru að „fólk á öllum aldri verslar á netinu og 65% fólks telja að það muni auka vefverslun sína í framtíðinni. Íslendingar vilja greinilega versla í auknum mæli á netinu og þar liggja tækifærin fyrir íslenska söluaðila."
79% Íslendinga versluðu á netinu síðustu 12 mánuði
Í erindi Heiðar á ráðstefnunni kom fram að "Íslendingar eru á meðal þeirra þjóða þar sem hvað flestir versla á netinu eða 79%. Samkvæmt Eurostat er sambærilegt hlutfall fyrir Bretland 83%, Danmörku 82%, Noreg 78%, Lúxemborg 78%, Svíþjóð 76% og Holland og Þýskaland 74%. 65% svarenda telja að netverslun þeirra muni aukast og 31% til viðbótar að hún muni haldast óbreytt,“
Fólk á öllum aldri verslar á netinu
Könnunin sýnir glögglega að vefverslun einskorðast ekki við ungt fólk, því fólk á öllum aldri verslar á netinu. Nær allir á aldrinum 25-44 ára sögðust hafa verslað á netinu sl. 12 mánuði og 52% fólks 65 ára og eldri sögðust hafa gert það. Við nánari skoðun kom í ljós að færri ungir versla við íslenska aðila.
Íslendingar leita í meira mæli til erlendra söluaðila
Í könnun Gallup kemur fram að Íslendingar leita í meira mæli til erlendra söluaðila en neytendur í nágrannalöndum okkar. Af þeim sem höfðu verslað á netinu höfðu 76% verslað við íslenska söluaðila og 87% höfðu verslað við erlenda söluaðila. „Ýmsar rannsóknir sýna að neytendur í nágrannalöndum okkar versla í meira mæli við innlenda söluaðila og í minna mæli við erlenda heldur en þeir íslensku eru að gera,“ sagði Heiður ennfremur. Einnig kemur fram að þrír af hverjum fjórum hafa leitað sér upplýsinga um vöru á netinu en ákveðið að kaupa hana í verslun á staðnum.
Heildarniðurstöður könnunarinnar
Gallup hefur nú gefið út skýrslu með heildarniðurstöðum könnunarinnar og kostar hún 54.000 kr.