Sífellt fleiri verslanir gera fólki kleift að kaupa og selja notaða hluti og fatnað, og áhersla á umhverfisvernd og endurnýtingu hefur farið vaxandi síðustu ár. Í því samhengi var skoðað hvort einhverjir hefðu gefið eða fengið notaðar gjafir um síðustu jól og viðhorf fólks í þeim efnum.
Í ljós kom að næstum 14% landsmanna gáfu notaðan hlut í jólagjöf nýliðin jól. Aukinheldur könnuðust 12% við að hafa fengið notaðan hlut í jólagjöf um jólin. Konur voru bæði líklegri til að hafa fengið og gefið notaðan hlut í jólagjöf.
Möguleiki er á að þetta verði algengara á næstu árum, þar sem enn fleiri geta hugsað sér að gefa notaða hluti. Hátt í 22% segja líklegt eða öruggt að þau muni gefa notaðan hlut í jólagjöf næstu jól. Enn telja þó 54% það ólíklegt eða óhugsandi en tæplega fjórðungur segir það hvorki líklegt né ólíklegt.
Þó að einungis 22% telji líklegt að þau gefi notaðan hlut í jólagjöf næstu jól segjast 61% Íslendinga vera jákvæðir gagnvart því að fá notaðan hlut í jólagjöf næstu jól. Þegar kemur að notuðum hlutum þykir Íslendingum því sælla að þiggja heldur en gefa.