Mörg okkar hefja árið með því að setja sér ný markmið og taka þátt í áskorunum sem stuðla að betri líðan. Ein slík áskorun er áfengislaus janúar (e. dry january) þar sem fólk ákveður að sleppa áfengi í heilan mánuð.

Samkvæmt nýrri könnun Gallup hættu um 16% þeirra sem neyta áfengis að drekka í janúar sem þýðir að tæplega einn af hverjum sex áfengisneytendum hættu að drekka þann mánuð. Konur yngri en 39 ára voru líklegri en karlar á sama aldri til að taka þátt í áfengislausum janúar.

Af þeim sem tóku þátt í áfengislausum janúar, þá segjast rúmur fjórðungur þeirra hafa fundið fyrir jákvæðum breytingum á líðan sinni. Þó ber að nefna að rúmlega fjórðungur landsmanna neytir ekki áfengis yfirhöfuð. Þetta undirstrikar að umtalsverður hluti þjóðarinnar lifir áfengislausu lífi allan ársins hring.