Aldrei hafa fleiri Íslendingar verslað á netinu en í ár, en samkvæmt neyslukönnun Gallup 2019 versluðu 76,8% Íslendinga á netinu síðustu 12 mánuði. Yngra fólk er líklegra til að versla á netinu en þau sem eldri eru og er hlutfallið hæst í aldurshópnum 25-34 ára, þar sem 95% höfðu verslað á netinu. Árið 2007 höfðu 66,8% landsmanna verslað á netinu síðastliðið ár og fór hlutfallið lækkandi fyrstu árin eftir hrun, en hefur síðan þá vaxið jafnt og þétt.
Hvað kaupa Íslendingar á netinu?
Í Neyslukönnun Gallup er að finna ýmsar vísbendingar um hvers konar vörur fólk kaupir í netverslunum og hvernig mismunandi vöruflokkar eru að þróast. Ljóst er að netverslunarhegðun er oft mjög mismunandi eftir aldri, kyni og fjölskylduaðstæðum. Heilt á litið hefur orðið vöxtur í öllum vöruflokkum sem mældir hafa verið síðustu ár.
Árið 2007 höfðu 15,1% Íslendinga keypt föt á netinu síðastliðna 12 mánuði, en í ár er hlutfallið komið upp í 47,7%. Það kemur líklega ekki á óvart að barnafólk er líklegra til að kaupa föt á netinu en barnlausir. Einnig eru konur og fólk undir 45 ára líklegri til að versla fatnað á netinu en karlar og eldri hópar.
Karlmenn eru aftur á móti í miklum meirihluta þegar kemur að því að kaupa raftæki og tölvuvörur á netinu, en tæplega helmingur þeirra hafði keypt slíkar vörur á netinu síðastliðna 12 mánuði. Á sama tíma hafði einungis tæplega fjórðungur kvenna gert slíkt hið sama.
Þeir vöruflokkar sem eru hvað sterkastir í netverslun hérlendis eru gisting og miðar á viðburði, en 61,5% landsmanna sögðust hafa keypt miða á viðburð í netverslun síðastliðið ár og 56,8% hafði keypt gistingu. Lítill munur er á milli kynja í þessum flokkum, en íbúar Reykjavíkur eru líklegastir til að kaupa gistingu og miða á viðburði á netinu.
Áhugavert er að skoða þróun á kaupum á matvöru í netverslunum, en frá 2007 og fram til 2016 varð lítil þróun í þessum vöruflokki. Hlutfall þeirra sem sögðust hafa verslað matvöru á netinu síðastliðna 12 mánuði hélst á bilinu 3-7% á þessum árum. Frá árinu 2017 hefur hins vegar orðið töluverður vöxtur og í ár sögðust 17,7% hafa verslað matvöru á netinu síðastliðið ár. Á sama tíma hefur framboð á matvöru í netverslunum hérlendis aukist mikið og fyrirtæki eins og Eldum rétt, Nettó, Boxið og Heimkaup byrjað að selja matvöru á netinu. Lítill munur er hér á konum og körlum, en 17% karla sögðust hafa keypt matvöru síðasta árið á móti 18,4% kvenna. Þetta er nokkuð athyglisvert í ljósi þess að þegar landsmenn eru spurðir að hve miklu leyti þeir sjá um matarinnkaup til heimilisins almennt segjast 69,1% kvenna sjá um þau að mestu eða öllu leyti, en einungis 38,3% karla.
Innlend og erlend netverslun
Töluverður meirihluti Íslendinga, eða 60,2% segjast versla oftar í erlendum vefverslunum en íslenskum. 22% segjast versla oftar í íslenskum vefverslunum og 17,8% segjast versla jafnoft í erlendum og innlendum vefverslunum. Konur eru líklegri en karlar að versla í íslenskum vefverslunum og einnig eykst verslun í íslenskum vefverslunum með hækkandi aldri.
En hvað skyldi það vera sem skiptir landsmenn mestu máli þegar þeir versla á netinu? Samkvæmt nýrri könnun Gallup er það lágt verð, traust til vefverslunarinnar og að vefurinn sé þægilegur sem skiptir allra mestu máli.
Þegar viðskipti við einstakar innlendar og erlendar netverslanir eru skoðuð kemur ýmislegt í ljós. Árið 2007 sögðust 32,1% Íslendinga hafa keypt vörur í gegnum netverslunarrisann Amazon síðastliðna 12 mánuði. Við efnahagshrunið 2008 drógust kaup frá Amazon verulega saman og náðu lágmarki árið 2009, þegar einungis 15% landsmanna sögðust hafa keypt vörur þaðan. Síðustu ár hefur þeim fjölgað aftur jafnt og þétt sem versla frá Amazon og mælast nú í fyrsta sinn fleiri en árið 2007, eða 35,4% landsmanna. Hlufallið er hæst í aldurshópnum 25-34 ára, þar sem tæplega helmingur hafði keypt vörur gegnum Amazon síðastliðið ár.
AliExpress hefur átt töluverðum vinsældum að fagna á Íslandi, ekki síst eftir að fríverslunarsamningur milli Kína og Íslands tók gildi árið 2014. Þeim sem sögðust hafa keypt vörur þaðan fór fjölgandi til ársins 2017, þegar 31,5% landsmanna sögðust hafa keypt af AliExpress síðastliðið ár. Hlutfallið stóð nokkurn veginn í stað árið 2018, en í ár mældist í fyrsta skipti lækkun og sögðust 29,2% þá hafa keypt vörur síðustu 12 mánuðina. Aldurshópurinn 35-44 ára er stærsti viðskiptavinahópurinn og karlar eru líklegri til að kaupa vörur af AliExpress en konur.
Ein af fjölmörgum íslenskum netverslunum er Heimkaup.is, sem opnaði árið 2013. Í neyslukönnun 2014 sögðust 10,4% landsmanna hafa keypt vörur gegnum Heimkaup síðastliðið ár, en í ár var þetta hlutfall komið upp í 28,1% og gefur ákveðna vísbendingu um að íslensk netverslun sé ekki síður að vaxa en erlend. Konur eru töluvert líklegri til að kaupa af Heimkaup en karlar, en 35,3% kvenna sagðist hafa verslað vörur frá Heimkaup síðasta ár, á móti 21,1% karla. Líkt og á AliExpress er fólk á aldrinum 35-44 ára líklegast til að kaupa vörur af Heimkaup.
Fataverslunin Asos sker sig nokkuð úr í neyslukönnun Gallup. Verslunin var fyrst mæld árið 2018 og sögðust þá 13,6% landsmanna hafa keypt vörur gegnum verslunina síðastliðið ár. Í ár hafði þetta hlutfall hækkað upp í 15,5%. Konur eru mun líklegri til að kaupa af Asos en karlar, en 21% kvenna hafði verslað á Asos á móti 10,3% karla. Það er áhugavert að sjá hversu vel Asos virðist ná til ungs fólks, en í aldurshópnum 18-24 ára sögðust 40,9% hafa keypt vörur af Asos síðasta árið og er engin önnur netverslun í neyslukönnun Gallup sem mælist sterkust í þessum aldurshópi.
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Þrátt fyrir vöxt síðustu ára eru þó vísbendingar um að netverslun eigi nóg inni á Íslandi. Árið 2017 var netverslun Íslendinga 2,9% af heildarsmásöluverslun á Íslandi, meðan að hún var um eða yfir 10% í nágrannalöndunum.[1]
Þjónustustig vefverslana er sífellt að aukast og bjóða þær upp á ýmis þægindi fyrir kaupandann, svo sem heimsendingu á þeim tíma sem hentar viðskiptavininum og í sumum tilfellum er jafnvel hægt að fylgjast með hvar pöntunin er stödd á leiðinni. Upplýsingar í netverslunum eru sömuleiðis sífellt að verða ítarlegri og færa kaupandann stöðugt nær þeirri upplifun að hann sé að skoða vöruna á staðnum.
Mikil gróska er í netverslunum hérlendis, en í vöruleit Já.is, þar sem hægt er að leita í vöruúrvali íslenskra netverslana og gera verðsamanburð, eru nú um 500 íslenskar vefverslanir með 600.000 vörur og bætist stöðugt við.
Það er því margt spennandi í gangi og verður gaman að fylgjast áfram með þróun vefverslunar hérlendis á komandi árum.
Heimildir
- Emil Karlsson. (2018). Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni. Rannsóknasetur verslunarinnar. Sótt 4. nóvember af http://rsv.is/Files/Skra_0078623.pdf