Í alþingiskosningunum í ár kusu mun fleiri fyrir kjördag en í undanförnum kosningum og var það m.a. skýrt með þáttum eins og aðgengilegri utankjörfundarstöðum, heimsfaraldrinum, slæmri veðurspá framan af og hvatningu frambjóðenda til þess. Í samræmi við það voru fleiri nú en undanfarið sem ákváðu með miklum fyrirvara að kjósa það sem þeir kusu. Enn voru þó margir sem ákváðu sig á síðustu stundu en meira en einn af hverjum fimm ákvað sig ekki fyrr en á kjördag.
Fleiri konur en karlar ákváðu sig á kjördag en fleiri karlar en konur ákváðu sig mjög snemma, eða meira en mánuði fyrir kosningar. Í stuttu máli ákvað eldra fólk sig fyrr en yngra. Þegar aldursmunur er skoðaður nánar kemur fram að fólk yfir fimmtugu ákvað sig mun frekar meira en mánuði fyrir kosningar en yngra fólk, fólk undir fertugu ákvað sig frekar í vikunni sem það kaus en eldra fólk og fólk ákvað sig að jafnaði frekar á kjördag eftir því sem það er yngra.
Einnig er munur eftir búsetu en mestur munur er eftir því hvaða flokk fólk kaus. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru lang líklegastir til að hafa ákveðið sig meira en mánuði fyrir kosningar en þar á eftir koma kjósendur Miðflokksins og þá Sósíalistaflokksins. Flestir þeirra sem kusu Samfylkinguna tóku ákvörðun um það á kjördag en aðrar niðurstöður má sjá í meðfylgjandi greiningu.
Hvaða flokka vill almenningur sjá í ríkisstjórn?
Þegar fólk er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkisstjórn er Framsóknarflokkurinn sá flokkur sem er oftast nefndur, næst Vinstri græn og þar á eftir Sjálfstæðisflokkurinn. Ríflega 77% nefna Framsóknarflokkinn, nær 72% Vinstri græn en tæplega 57% Sjálfstæðisflokkinn. Næstum 34% nefna Samfylkinguna, rúmlega 28% Pírata, rösklega 26% Viðreisn og rúm 23% Flokk fólksins. Tæplega 8% nefna loks Miðflokkinn.
Röðin er nánast sú sama og eftir alþingiskosningarnar 2017 en hlutfallið er aðeins breytt þar sem hærra hlutfall nefnir stjórnarflokkana þrjá nú en áður; Framsóknarflokk, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokk, en lægra hlutfall nefnir aðra flokka nú en síðast. Mesta lækkunin er hjá Miðflokknum.
- Fleiri karlar en konur vilja sjá Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn og fólk vill það frekar eftir því sem það er eldra. Þeir sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru ólíklegri en þeir sem hafa hærri tekjur til að vilja sjá flokkinn í ríkisstjórn, og þeir sem hafa hæstar fjölskyldutekjur eru líklegastir til þess.
- Einnig kemur fram einhver munur eftir aldri og fjölskyldutekjum á hlutfalli þeirra sem vilja sjá Vinstri græn í ríkisstjórn. Fólk sextugt og eldra er líklegast til að nefna Vinstri græn og fólk sem tilheyrir hærri tekjuhópum en lægri er að jafnaði líklegra til þess þó að það sé ekki algilt.
- Fólk yfir fertugu vill frekar en yngra fólk sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.
- Fleiri nefna Samfylkinguna meðal þeirra sem eru undir fertugu en þeirra sem eldri eru, og flestir meðal þeirra sem eru undir þrítugu.
- Fólk undir fertugu vill frekar en eldra fólk sjá Pírata í ríkisstjórn og fólk er líklegra til að vilja sjá þá í ríkisstjórn eftir því sem það hefur meiri menntun að baki.
- Fólk vill að jafnaði frekar sjá Viðreisn í ríkisstjórn eftir því sem það er yngra og íbúar höfuðborgarsvæðisins nefna hana frekar en íbúar landsbyggðarinnar. Munur er eftir fjölskyldutekjum á hlutfalli þeirra sem nefna Viðreisn en þeir sem hafa lægstar fjölskyldutekjur eru ólíklegastir til þess og þeir sem hafa hæstar fjölskyldutekjur líklegastir. Fólk er loks líklegra til að vilja sjá Viðreisn í ríkisstjórn eftir því sem það hefur meiri menntun að baki.
- Fólk með minni menntun en meiri er líklegra til að vilja sjá Flokk fólksins í ríkisstjórn og fólk er líklegra til að vilja það eftir því sem það hefur lægri tekjur.
- Íbúar landsbyggðarinnar vilja frekar en höfuðborgarbúar sjá Miðflokkinn í ríkisstjórn og fólk með minni menntun en meiri er líklegra til að vilja það.
Mikill munur er á því hve margir nefna viðkomandi flokk eftir því hvaða flokk fólk kaus og vilja eðlilega flestir sjá þann flokk sem það kaus í ríkisstjórn.
Ríflega 95% kjósenda Sjálfstæðisflokks nefna Framsóknarflokk en 73% Vinstri græn. Nær 86% kjósenda Framsóknarflokks nefna Sjálfstæðisflokk og rúmlega 76% Vinstri græn. Ríflega 86% kjósenda Vinstri grænna nefna Framsóknarflokk en aðeins 56% Sjálfstæðisflokk. Rösklega þrír af hverjum fjórum kjósendum Samfylkingar nefna Vinstri græn, sex af hverjum tíu Pírata, 57% Framsóknarflokk og 55% Viðreisn. Rúmlega sjö af hverjum tíu kjósendum Flokks fólksins nefna Framsóknarflokk og 56% Vinstri græn. Um 79% kjósenda Pírata nefna Samfylkingu og sama hlutfall Vinstri græn. Tveir af hverjum þremur kjósendum Viðreisnar nefna Framsóknarflokk. Rúmlega 94% kjósenda Miðflokks nefna Framsóknarflokk en tæplega 81% kjósenda flokksins nefna Miðflokkinn sjálfan. Nær níu af hverjum tíu kjósendum Sósíalistaflokksins nefna Samfylkinguna, svipað hlutfall Pírata og um átta af hverjum tíu Flokk fólksins.
Þegar fólk er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkisstjórn velja langflestir núverandi stjórnarflokka, eða meira en þriðjungur svarenda. Þess má geta að eftir alþingiskosningarnar 2017 nefndu um 11% þá samsetningu. Mun færri nefna aðra flokka saman en nokkrar samsetningar eru nefndar af um 4% svarenda.
Fólk er heldur líklegra til að vilja óbreytta stjórn eftir því sem það er eldra og fólk með hærri fjölskyldutekjur er líklegra til að vilja óbreytta stjórn en fólk með lægri tekjur. Fólk með háskólamenntun er almennt ólíklegra til að vilja óbreytta stjórn en fólk með minni menntun að baki.
Mikill munur er á því hvaða flokka fólk vill sjá saman í ríkisstjórn eftir því hvaða flokk það kaus. Tveimur af hverjum þremur kjósendum Sjálfstæðisflokksins hugnast best áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka og litlu færri kjósenda Framsóknarflokksins á meðan tæplega helmingi kjósenda Vinstri grænna hugnast það best. Kjósendum annarra flokka hugnast önnur stjórnarmynstur betur.
Spurt var:
- Hvenær ákvaðstu endanlega að kjósa það sem þú kaust? (svarmöguleikar voru mismunandi eftir því hvort svarendur kusu á kjördag eða utan kjörfundar)
- Hvaða flokkar myndir þú vilja að mynduðu nýja ríkisstjórn?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 12. október 2021. Heildarúrtaksstærð var 1.629 og þátttökuhlutfall var 52,9%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.