Ferðamannapúlsinn lækkar milli mánaða og stendur nú í 83,6 stigum af 100 mögulegum. Niðurstöður Púlsins sýna þó sem fyrr að almenn ánægja er meðal ferðamanna sem sækja Ísland heim. Mesta lækkunin er á þætti sem snýr að því hvort gestum hafi þótt ferðin vera peninganna virði og leiða Bretar og Frakkar þá lækkun. Leiða má líkum að því að styrking krónunnar sé farin að hafa áhrif á skynjað virði þeirra ferðamanna sem hingað koma.
Gestir frá Ísrael ánægðastir
Líkt og áður hefur þjóðerni og lengd dvalar áhrif á mat fólks á ferð þess til Íslands. Í ágúst gáfu ferðamenn frá Ísrael hæstu einkunnina eða 89,7 stig. Fast á hæla þeirra koma Pólverjar og Austurríkismenn. Írar eru síst ánægðir þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í ágúst en þeir gefa 78,1 stig í meðaleinkunn. Frakkar gefa næst lægstu einkunnina eða 79,9 stig. Þegar kemur að lengd dvalar eru þeir ferðamenn sem dvelja í 1-2 nætur á Íslandi töluvert óánægðari en þeir sem dvelja lengur.
Styrking krónunnar mögulega farin að hafa áhrif
Ef litið er til undirþátta Ferðamannapúlsins þá lækka þeir allir milli mánaða. Mesta lækkunin er á þætti sem snýr að því hvort ferðin hafi verið peninganna virði. Í júlí var einkunnin 80,7 stig en lækkar niður í 77,6 stig í ágúst. Þegar niðurstöður á þessum þætti eru greindar eftir helstu þjóðernum yfir lengri tíma kemur í ljós að Bretar gáfu að jafnaði 8,7 stigum lægri einkunn í ágúst en þeir gerðu í febrúar. Frakkar gáfu að sama skapi 8 stigum lægri einkunn nú en í febrúar og Bandaríkjamenn 5,4 stigum lægri einkunn. Leiða má líkum að því að styrking krónunnar hafi mögulega haft áhrif á mat ferðamanna á því hvort ferðin hafi verið peninganna virði.
Ferðamenn eyða meiru
Þátttakendur í Ferðamannapúlsinum eru einnig spurðir frekar út í ferðalag sitt til Íslands, s.s. eins og hversu miklu fé þeir eyddu á dag meðan á dvöl þeirra stóð, að frátöldum flugfargjöldum og gistingu. Í ljós kom að ferðamenn eyddu meira fé í ágúst en þeir gerðu fyrr á árinu. Miðgildið í ágúst var liðlega 20.000 krónur á dag en var tæplega 15.900 krónur í mars. Þegar eyðslan í ágúst er skoðuð eftir þjóðernum sést að miðgildið er hæst fyrir Ástrali, eða tæplega 27.000 krónur. Þar á eftir koma Kanadabúar, en miðgildi þeirra var 24.000 krónur.
* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.