Það er áhugavert að skoða breytingar á fylgi stjórnmálaflokka síðasta áratuginn. Á þessu tímabili hafa orðið umtalsverðar breytingar á fylgi stærstu stjórnmálaflokka landsins eða hins svokallaða fjórflokks sem og á fjölda flokka sem bjóða fram lista í alþingiskosningum. Gallup hefur mælt og birt opinberlega fylgi við stjórnmálaflokka frá því á tíunda áratugnum og þegar er rýnt er í gögnin má greina töluverðar breytingar síðustu 5-6 árin ef litið er á fylgi við fjórflokkinn. Sjá mynd1.
Mynd1. Samanlagt fylgi fjórflokksins
Í alþingiskosningum 2007 fóru um 90% greiddra atkvæða til Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar og hafði gert um nokkurt skeið. Fylgi þessara fjögurra flokka í skoðanakönnunum var áfram umtalsvert fram til 2012 þegar nokkuð fór að draga úr fylgi þeirra en um 80% stuðningur var við fjórflokkinn það ár. Stuðningur við fjórflokkinn minnkaði áfram niður í 70% snemma árs 2014 og um frá ársbyrjun 2015 fram á haustið 2016 voru lengst af um 55% sem sögðust ætla að kjósa einhvern þessara flokka. Það má því segja að þær háværu kröfur um breytingar í stjórnmálum í kjölfar efnahagshrunsins hafi tekið nokkurn tíma að koma fram í breytingum á fylgi fjórflokksins.
Frá kosningunum 2016 jókst fylgi fjórflokksins aftur og hefur verið í kringum 70% frá ársbyrjun 2017.
Nokkar sveiflur hafa verið á fylgi einstakra flokka innan fjórflokksins í könnunum Gallup frá 2008 eða um 15 til 30 prósentustig:
- Vinstri græn mældust hæst 32% í nóvember 2008 og lægst 7% í febrúar 2013.
- Samfylkingin mældist hæst 35% í febrúar 2008 og lægst 5% í nóvember 2016.
- Framsókn mældist hæst 30% í apríl 2013 og lægst 7% febrúar 2008 og í apríl 2016.
- Sjálfstæðisflokkur mældist hæstur 41% í janúar 2008 og lægstur 21% í nóvember 2008.
Hvernig vegnaði nýjum framboðum á þessum tíma?
Áhugavert er að skoða hvernig nýjum framboðum hefur vegnað og hvort þeim hafi tekist að festa sig í sessi í íslenskum stjórnmálum.
Borgarhreyfingin var afsprengi búsáhaldabyltingarinnar og tilkynnti framboð sitt til alþingiskosninga í febrúar 2009 og var eini flokkurinn utan fjórflokksins sem náði manni inn á Alþingi. Fylgið óx jafnt og þétt í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna og fékk flokkurinn 7,2% fylgi í kosningunum. Það fjaraði þó fljótlega undan fylginu og í september 2009 klofnaði flokkurinn.
Mikil gróska var í nýjum framboðum árið 2012, ári fyrir alþingiskosningar 2013. Samstaða var stofnuð snemma árs 2012 og mældist með 11% fylgi í skoðanakönnun Gallup í febrúar. Flokkurinn missti fylgið fljótt og ári eftir stofnun var ákveðið að flokkurinn byði ekki fram í alþingiskosningunum. Björt framtíð var einnig stofnuð í ársbyrjun 2012 og fór rólega af stað í skoðananakönnunum. Fylgið mældist nokkuð stöðugt í kringum 4-5% fyrstu mánuðina en svo sótti Björt framtíð í sig veðrið og í ársbyrjun 2013 mældist fylgi Bjartrar framtíðar 18,6%, þremur mánuðum fyrir kosningar. Flokkurinn endaði hins vegar með að fá 8,2% fylgi í kosningunum 2013.
Einn af þeim flokkum sem komu fram 2013 sker sig frá hinum en það eru Píratar . Píratar mældust ekki hátt í skoðanakönnunum í upphafi en fengu 5,1% fylgi í alþingiskosningunum 2013. Flokknum óx smám saman ásmegin í könnunum og frá apríl 2015 til mars 2016 mældist flokkurinn með yfir 30% fylgi í könnunum Gallup. Eftir því sem nær dró alþingiskosningunum 2016 dró úr hins vegar fylgi Pírata sem hlutu á endanum 14,5% fylgi .
Viðreisn og Flokkur fólksins buðu í fyrsta sinn fram til alþingiskosninga 2016 og Miðflokkurinn 2017 og eiga allir þrír flokkar fulltrúa á Alþingi í dag.
Innsýn
Í kjölfar efnahagshrunsins var ákall um breytingar í samfélaginu og endurnýjun stjórnmálanna. Tímabilið einkenndist af gerjun flokkakerfisins, sem náði hámarki fyrir alþingiskosningar 2013 þegar alls 11 flokkar buðu fram, þar af sjö nýir flokkar (sjá mynd 2).
Mynd 2.
Þó dregið hafi úr fjölda nýrra framboða á landsvísu hefur fjöldi flokka á Alþingi aftur á móti aldrei verið meiri en núna í kjölfar kosninganna 2017. Fylgi fjórflokksins hefur dalað á þessum tíma, sem hefur skapað svigrúm fyrir nýja flokka og leiða má að því líkum að flokkakerfið sé enn í mótun.