Gallup á Íslandi tók þátt í framkvæmd könnunar á vegum Alþjóðlegu Gallupsamtakanna (GIA) sem var gerð í 17 löndum víðsvegar um heiminn um ýmsa þætti tengda COVID-19.

Ótti við smit

Ótti við smit_ísland

Nær 85% Íslendinga eru hræddir um að annað hvort þeir eða einhver í fjölskyldu þeirra gæti smitast af COVID-19. Aðeins í Indónesíu, Argentínu, Suður-Kóreu og á Filippseyjum er hlutfallið hærra af þeim löndum sem tóku þátt í könnuninni. Síðan í mars hefur hlutfall þeirra sem óttast smit hækkað mest í Bandaríkjunum, eða um 25 prósentustig, en lækkað mest á Ítalíu og í Rússlandi.

Ótti við smit samanburður milli landa

Frammistaða stjórnvalda

Framistaða stjórnvalda_ísland

Ríflega 96% Íslendinga telja stjórnvöld vera að takast vel á við COVID-19 og er hlutfallið hvergi hærra. Það er lang lægst í Tælandi og Japan en Bandaríkin og Rússland koma þar á eftir. Síðan í mars hefur hlutfallið hefur hækkað mest í Þýskalandi, eða um 26 prósentustig, en lækkað mest á Ítalíu.

Framistaða stjórnvalda_samanburður milli landa

Ógn

Ógn_Ísland

Aðeins 7% Íslendinga telja að sú ógn sem stafar af COVID-19 sé ýkt og er hlutfallið hvergi lægra, en hæst er það í Pakistan. Nær alls staðar hefur hlutfall þeirra sem telja ógnina ýkta lækkað síðan í mars en mest hefur það lækkað í Bandaríkjunum og Þýskalandi, eða um 36 og 34 prósentustig.

Ógn_samanburður milli landa

Mannréttindi

Mannréttindi_ísland

Tæplega 84% Íslendinga eru tilbúin að fórna einhverjum mannréttinda sinna ef það hjálpar til við að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19. Hæst er hlutfallið á Indlandi, eða 96%, en lang lægst í Japan, eða 49%. Þó hlutfallið sé einna lægst í Bandaríkjunum hefur það hækkað mest þar síðan í síðasta mánuði.

Mannréttindi_samanburður milli landa

Heimurinn

Heimurinn hverfi til fyrra ástands_ísland

Rúmlega sex af hverjum tíu Íslendingum telja að heimurinn muni hverfa nokkurn veginn til fyrra ástands þegar COVID-19 faraldurinn er genginn yfir, en tæplega fjórir af hverjum tíu telja að það verði miklar breytingar í kjölfar faraldursins og heimurinn verði nánast gjörbreyttur. Hlutfall þeirra sem telja að heimurinn verði mjög breyttur eftir faraldurinn er einna hæst á Filippseyjum og Ítalíu þar sem hátt í tveir af hverjum þremur telja það.

Heimurinn hverfi til fyrra ástands_samanburður milli landa

Samskipti

Samskipti_ísland

Nær 65% Íslendinga telja að samskipti valdamestu ríkja heims muni einkennast af meiri samvinnu eftir COVID-19 faraldurinn á meðan rúmlega 35% telja að þau muni einkennast af meiri árekstrum. Hæst hlutfall þeirra sem telja að samskiptin muni einkennast af meiri samvinnu er í Indónesíu, eða 88%, en lægst í Rússlandi, eða 46%.

Samskipti_samanburður milli landa

Upptök og útbreiðsla

Upptök og útbreiðsla_ísland

Nær 92% Íslendinga telja að útbreiðsla veirunnar hafi orðið með náttúrulegum hætti en nær 8% telja að erlendir aðilar eða önnur öfl hafi viljandi valdið útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19. Hlutfall þeirra sem telja útbreiðslu veirunnar ekki hafa orðið með náttúrulegum hætti er afar misjafnt eftir löndum en er lægst á Íslandi. Hæst er það í Armeníu en þar telja sjö af hverjum tíu að útbreiðslan hafi ekki orðið með náttúrulegum hætti.

Upptök og útbreiðsla_samanburður

Spurt var:

  • Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingum?
  • Ég er hrædd(ur) um að annað hvort ég eða einhver í fjölskyldu minni gæti smitast af COVID-19
  • Stjórnvöld eru að mínu mati að takast vel á við COVID-19
  • Ég tel að sú ógn sem stafar af COVID-19 sé ýkt
  • Ég er tilbúin(n) að fórna einhverjum mannréttinda minna ef það hjálpar til við að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19
  • Þegar COVID-19 faraldurinn er genginn yfir, telur þú að heimurinn muni hverfa nokkurn veginn til fyrra ástands eða telur þú að það verði miklar breytingar í kjölfar faraldursins og heimurinn verði nánast gjörbreyttur?
  • Telur þú að samskipti valdamestu ríkja heims muni einkennast af meiri samvinnu eða meiri árekstrum eftir COVID-19 faraldurinn?
  • Telur þú að erlendir aðilar eða önnur öfl hafi viljandi valdið útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19 eða heldurðu að útbreiðsla hennar hafi orðið með náttúrulegum hætti?

Hlutföll eru reiknuð út frá fjölda þeirra sem tóku afstöðu til spurninganna en hlutfall þeirra sem tóku ekki afstöðu var misjafnt eftir spurningum og löndum.

Niðurstöður sem hér birtast um Ísland eru úr netkönnun sem gerð var dagana 3. - 14. apríl 2020. Þátttökuhlutfall var 53,6%, úrtaksstærð 2.963 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Kannanir í öðrum löndum voru gerðar á svipuðu tímabili, fyrir utan spurninguna um hvort útbreiðsla veirunnar hafi orðið með náttúrulegum hætti eða ekki, en hennar var spurt erlendis í mars. Þar sem sýnd er þróun var spurninganna einnig spurt erlendis í mars.