Ferðamannapúlsinn hækkar lítillega milli mánaða en einkunnin í september er 84,9 stig af 100 mögulegum en var 83,6 stig í ágúst. Þeir sem sækja Ísland heim eru áfram mjög líklegir til að mæla með landinu sem áfangastað.
Konur að jafnaði ánægðari en karlar með Íslandsheimsókn
Í september gáfu ferðamenn frá Austurríki og Póllandi hæstu einkunnina eða tæplega 89 stig. Japanir eru síst ánægðir þeirra ferðamanna sem sóttu Ísland heim í september en þeir gefa liðlega 79 stig í meðaleinkunn. Írar gefa næst lægstu einkunnina eða nær 82 stig. Þegar niðurstöður Ferðamannapúlsins eru skoðaðar eftir kyni þá kemur í ljós að konur gefa Íslandsheimsókninni að jafnaði hærri einkunn er karlar.
Gestir líklegir til að mæla með Íslandi sem áfangastað
Ef litið er til undirþátta Ferðamannapúlsins þá hækka þeir allir milli mánaða. Mesta hækkunin er á þætti sem lýtur að því hvort ferðin hafi verið peninganna virði en í september er einkunnin 80,5 stig af 100 mögulegum en var 77,6 stig í ágúst.
Sá undirþáttur sem þátttakendur í Ferðamannapúlsinum meta jafnan hæst snýr að líkum á því að mæla með Íslandi sem áfangastað en einkunnin hefur ekki farið undir 90 stig frá því að mælingar hófust í febrúar. Í september er einkunnin 91,6 stig á heildina og eru Ungverjar líklegastir til að mæla með Íslandi sem áfangastað en þar á eftir koma Austurríkismenn, Slóvakar og Pólverjar með yfir 95 stig í einkunn. Japanir, Hollendingar, Bretar og Kanadamenn gefa hins vegar einkunn undir 90 stigum á meðmælaþættinum.
* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.