Gallup, Ferðamálastofa og ISAVIA mæla reglulega ánægju ferðamanna með Ferðamannapúlsinum. Áhugavert er að skoða þróun svara við nokkrum spurningum eftir ársfjórðungum, en mælingar hafa staðið yfir frá ársbyrjun 2016.

Líkur til að mæla með Íslandi sem áfangastað

Síðsumars 2016 hófst lækkun á líkum þess að ferðamenn mæli með Íslandi sem áfangastað, en nú sýnir Ferðamannapúlsinn að ánægja ferðamanna sé á uppleið. NPS mælingar á líkum þess að erlendir ferðamenn mæli með Íslandi sem áfangastað mældust að meðaltali 73 stig á fyrri helmingi ársins 2016, en þá lækkuðu einkunnir og náðu lágmarki í júní 2017 þegar NPS skorið mældist 61 stig. Eftir að hafa mælst að meðaltali 66 stig næstu 12 mánuði byrjaði NPS skorið að hækka nokkuð snögglega og mældist NPS skorið 74 stig í desember 2018, sem er hæsta mæling síðan í júlí 2016.

NPS mælingar líkur á meðmælum

Annar af undirþáttum Ferðamannapúlsins er hvort ferðin hafi verið peninganna virði, sem hefur töluvert sterk tengsl við hvort að ferðamenn mæli með Íslandi sem áfangastað. Sjá má að mat ferðamanna á því hvort ferðin hafi verið peninganna virði hefur einnig mjög sterk tengsl við gengi krónunnar.

Ferðamannapúls undirþættir var ferðin peninganna virði

Mælikvarðarnir fimm sem mynda Ferðamannapúlsinn eru:

  • líkur á að mæla með Íslandi sem ferðamannastað
  • heildaránægja með ferðina
  • mat á gestrisni Íslendinga
  • hvort ferðin hafi verið peninganna virði
  • hvort ferðin hafi uppfyllt væntingar.

Til viðbótar eru svarendur spurðir um ýmis ferðatengd viðhorf og hegðun. Til dæmis þjóðerni, aldur og kyn, tilgang og lengd Íslandsferðarinnar, með hverjum ferðast var, hvaða landshlutar voru heimsóttir í ferðinni, val á gistiaðstöðu og ferðamáta og margt fleira. Þessar upplýsingar má nota til að flokka ferðamenn í hópa sem hafa svipuð einkenni þegar kemur að ferðatengdum viðhorfum og hegðun, í þeim tilgangi að markhópagreina mengi erlendra ferðamanna. Þannig má setja fram tíu helstu markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu, sem eru: Norður-Ameríka, Bretlandseyjar, Norðurlöndin, BeNeLux löndin, DACH löndin (Þýskaland, Austurríki, Sviss), Frakkland, Suður-Evrópa, Austur-Evrópa, Asía og Ástralía (Eyjaálfa).

Hver hópur hefur sín einkenni og má þar til að mynda nefna að Íslandsferðir ferðamanna frá Norður-Ameríku og Norðurlöndum eru almennt styttri heldur en ferðamanna frá Suður-Evrópu og DACH landanna. Norðurlandabúar eru líklegastir til að ferðast með börn og ferðamenn frá Bretlandseyjum eru ólíklegastir til að taka bílaleigubíl á meðan Íslandsdvölinni stendur. Ánægja þessara hópa er einnig töluvert mismunandi og eru ferðamenn frá Austur-Evrópu, Suður-Evrópu og DACH löndunum líklegastir til að mæla með Íslandi sem áfangastað. Þrátt fyrir að Frakkar væru áður meðal þeirra ferðamanna sem voru hvað líklegastir til að mæla með Íslandi sem áfangastað voru þeir komnir á botn listans árið 2018, en NPS mælingar á líkum þess að mæla með Íslandi lækkuðu um þrettán stig á tveimur árum hjá þeim hóp.

Ferðamannapúls 2018 eftir markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu

Fyrir nánari upplýsingar eða ítarlegri greiningar á einkennum, hegðun eða viðhorfum erlendra ferðamanna má hafa samband við Gallup í síma 540-1200 eða með tölvupósti (gallup@gallup.is).

* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.