Ferðamannapúlsinn mældist 84,6 stig af 100 mögulegum í apríl, sem er einu stigi hærra en á sama tíma í fyrra. Ferðamannapúlsinn er metinn út frá fimm undirþáttum: heildaránægju með ferðina, líkum á að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort að ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort að ferðin hafi verið peninganna virði.
Ferðamenn frá Írlandi ánægðastir
Ef ferðamannapúlsinn er skoðaður eftir þjóðerni helstu ferðamannahópa má sjá að ferðamenn frá Írlandi gáfu hæstu einkunn, 89,2 stig. Ferðamenn frá Portúgal, Þýskalandi, Ítalíu og Ástralíu voru einnig meðal þeirra ferðamanna sem voru ánægðastir með Íslandsferðina í apríl.
Ferðamenn ánægðari með verðlagið
Stærsta breytingin frá sama tíma í fyrra er á því hvort ferðamenn upplifi að ferðin hafi verið peninganna virði, en sá undirþáttur fékk einkunnina 81,1, sem er nærri fjórum stigum hærra en í apríl í fyrra þegar einkunnin var 77,3 stig. Undirþættirnir líkur á meðmælum, gestrisni og uppfylling væntinga mældust einnig ívið hærri í apríl í ár en á sama tíma í fyrra, en heildaránægja mældist þó lægri í apríl í ár (81,3 stig) heldur en í apríl 2018 (83,4 stig).
Hátt hlutfall hér á landi vegna vinnu í apríl
Í Ferðamannapúlsinum hefur frá ársbyrjun 2016 verið safnað gögnum um ýmis viðhorf og hegðun erlendra ferðamanna á Íslandi, meðal annars um ástæðu heimsóknarinnar. Eitt þeirra atriða sem hafa verið einkennandi fyrir apríl hingað til er hátt hlutfall ferðamanna sem koma til landsins vegna vinnu eða smærri vinnufunda, en slíkir ferðamenn dvelja almennt töluvert skemur á landinu en aðrir ferðamenn og eru ólíklegri til að mæla með Íslandi sem áfangastað.
Mynd: Hlutfall ferðamanna sem segist hafa ferðast til Íslands vegna vinnuferðar eða smærri vinnufundar (e. work related/smaller meeting).
* Ferðamannapúlsinn er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup og byggja mælingar á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.