Nær 61% ferðuðust til útlanda síðastliðið sumar og eru það fleiri en í fyrrasumar. Hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt síðan fyrst var spurt 2010 en þá hafði þriðji hver svarandi ferðast til útlanda um sumarið.
Hlutfallslega fleiri konur en karlar ferðuðust til útlanda í sumar, og fleiri meðal fólks yngra en 30 ára en þeirra sem eru eldri. Íbúar höfuðborgarsvæðisins ferðuðust frekar til útlanda í sumar en íbúar landsbyggðarinnar, og fólk með háskólapróf frekar en þeir sem hafa minni menntun að baki. Loks er fólk líklegra til að hafa ferðast til útlanda í sumar eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur.
Ferðalög innanlands
Ríflega 73% Íslendinga ferðuðust innanlands í sumar. Færri landsmenn ferðuðust innanlands síðustu þrjú sumur en sumrin 2010-2012.
Fólk er líklegra til að hafa ferðast innanlands í sumar eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur. Einnig kemur fram munur eftir því hvað fólk sagðist myndi kjósa ef kosið yrði til Alþingis. Þeir sem hefðu kosið Framsóknarflokkinn eru líklegastir til að hafa ferðast innanlands í sumar en þeir sem hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinn ólíklegastir.
Gistinætur
Þeir sem ferðuðust til útlanda í sumar gistu hver samtals nærri 13 nætur að meðaltali á ferðalögum sínum, og þeir sem ferðuðust innanlands gistu hver samtals rúmlega 9 nætur að meðaltali. Þetta er svipaður fjöldi gistinátta og síðustu ár
Spurt var:
- Ferðaðist þú eitthvað til útlanda í sumar?
- Ferðaðist þú eitthvað innanlands í sumar?
- Hversu margar nætur gistir þú samtals í útlöndum í sumar?
- Hversu margar nætur gistir þú samtals á ferðalögum þínum innanlands í sumar?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 15. - 25. september 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.435 Íslendingar 18 ára og eldri og þátttökuhlutfall var 60%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.