Ríflega níu af hverjum tíu sem taka afstöðu kysu Guðna Th. ef gengið yrði til forsetakosninga í dag á meðan tæplega einn af hverjum tíu kysi Guðmund Franklín.
Fleiri konur en karlar kysu Guðna, eða nær 95% kvenna á móti rúmlega 86% karla, og einnig er munur eftir aldri. Fleiri kysu Guðna meðal þeirra sem hafa lokið háskólaprófi en þeirra sem hafa minni menntun að baki. Mikill munur er eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag, en stuðningur við Guðna er langminnstur meðal þeirra sem kysu Miðflokkinn. Ríflega 45% þeirra sem kysu Miðflokkinn segjast myndu kjósa Guðna en 90-100% þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Vinstri græn, Pírata, Viðreisn eða Framsóknarflokkinn. Nær 93% þeirra sem styðja ríkisstjórnina kysu Guðna á móti rúmlega 83% þeirra sem styðja hana ekki.
Spurt var:
- Eftirfarandi eru í framboði til embættis forseta Íslands. Hvorn þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?
- En hvorn frambjóðandann telur þú líklegra að þú myndir kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 29. maí til 3. júní 2020. Heildarúrtaksstærð var 1.108 og þátttökuhlutfall var 54,7%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Notkun á efni Þjóðarpúls Gallup og tilvitnun í það er heimil svo lengi sem heimilda er getið.