Gallup á Íslandi hefur hafið mælingar á notkun netmiðla á Íslandi. Netmælingarnar eru unnar í samstarfi við alþjóðlega netmælingarfyrirtækið comScore. comScore er leiðandi í mælingum á netnotkun í heiminum og mælir netnotkun í 44 löndum. Allir netmiðlar hérlendis geta tekið þátt í netmælingum Gallup. Birtur verður topplisti yfir notkun á mældum netmiðlum í hverri viku. Gallup hefur nú þegar samið um mælingar á eftirfarandi netmiðlum; bland.is, dv.is, fotbolti.net, ja.is, mbl.is, moi.is, pressan.is og visir.is.


Í teljaramælingum Gallup eru meðal annars mæld atriði eins og fjöldi notenda, innlita og flettinga á hvern mældan netmiðil. Hægt er að greina netumferð eftir því hvort hún kemur frá einkatölvum, spjaldtölvum eða snjallsímum og eftir því hvort um erlenda eða innlenda umferð er að ræða. Gallup býður jafnframt upp á greiningu og mælingu á notkun smáforrita (apps).


„Teljaramælingar comScore á Íslandi eru ánægjuleg viðbót við netmælingar comScore í Evrópu. Við hjá comScore hlökkum til samstarfsins við Gallup á Íslandi og helstu netmiðla landsins“, segir Harald Kittelsen framkvæmdarstjóri comScore í Noregi.


Topplistar á heimasíðu Gallup
Gallup mun birta vikulega topplista yfir notkun á mældum netmiðlum á heimasíðu sinni, http://www.topplistar.gallup.is. Fyrir hvern mældan netmiðil og helstu undirsíður er sýndur fjöldi notenda, innlita og flettinga fyrir meðaldag, meðal virkan dag, meðal helgardag og fyrir hverja viku. Jafnframt er mögulegt að skoða myndræna þróun á mælingunum og velja netmiðla til samanburðargreiningar.

Tenging við lýðfræðiupplýsingar
Gallup mun þróa netmælingarnar áfram og samhliða teljaramælingunni spyrja um heimsóknir á stærstu netmiðlana í Neyslu- og lífstílskönnun Gallup. Þannig verður mögulegt að greina dekkun netmiðlanna eftir lýðfræði og öðrum breytum Neyslukönnunarinnar.

„Það að hefja netmælingar er útvíkkun á þjónustu okkar og eðlilegt framhald af fjölmiðla- og auglýsingarannsóknum okkar. Þetta gerir okkur kleift að þróa mælingar og gagnagrunna okkar enn frekar viðskiptavinum okkar til hagsbóta”, segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup á Íslandi.

Um comScore
comScore er bandarískt fyrirtæki sem stofnað var árið 1999. comScore hefur víðtæka reynslu í mælingu á netumferð og er leiðandi á sínu sviði í heiminum. comScore mælir m.a. netnotkun í nágrannalöndum okkar Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. www.comscore.com