Könnun Gallup fyrir borgarstjórnarkosningar, sem var birt 25. maí (sjá hér), reyndist sú könnun sem náði best að fanga fylgi flokka í Reykjavík.
Þegar könnun Gallup er borin saman við niðurstöður kosninga sést að meðalfrávik er aðeins 0,89 prósentustig. Þegar eingöngu eru skoðaðir þeir flokkar sem náðu manni inn í borgarstjórn er meðalfrávikið 1,46 og er munurinn á könnun Gallup og kosningaúrslitum innan vikmarka fyrir fimm þeirra þ.e. Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Viðreisn, Miðflokkinn og Flokk fólksins.
Það er vandkvæðum háð að spá fyrir um úrslit kosninga og hafa þarf í huga að í viðhorfskönnunum er áherslan á að mæla viðhorf á ákveðnum tíma frekar en að spá fyrir um kosningahegðun.
Mælingar Gallup sýna að stórt hlutfall kjósenda ákveður á kjördag hvaða flokk það kýs. Í síðustu tveim Alþingiskosningum ákváðu kringum 25-30% kjósenda sig á kjördag. Það er því ljóst að breytingar geta orðið á viðhorfum fólks frá því síðasta könnun er gerð og þar til kosið er. Leiða má líkum að því að meiri breytingar geti orðið á lokametrunum eftir því sem flokkar í framboði eru fleiri og liggja nær hver öðrum málefnalega.
Ýmislegt getur orðið til þess að breyta viðhorfi fólks en á Íslandi hefur tíðkast sú hefð að síðustu umræður leiðtoga flokkanna fara fram kvöldið fyrir kosningar og er áhorf á þann þátt talsvert. Þar sem stór hluti fólks gerir endanlega upp hug sinn á kjördag getur frammistaða frambjóðenda í þættinum haft áhrif á hug kjósenda.
Hugsanlega má skýra frávik könnunar Gallup frá úrslitum kosninganna að einhverju leyti með tilvísun í leiðtogaumræðurnar kvöldið fyrir kosningar en mest voru frávikin hjá Sósíalistaflokki, Vinstri grænum og Pírötum. Fylgi Sósíalistaflokksins hafði verið að aukast frá því að það var mælt fyrst í byrjun apríl úr 0,4% í 3,8% í lokakönnun Gallup. Flokkurinn endaði hins vegar með að fá 6,37% atkvæða sem er nær tvöfalt það fylgi sem mældist í könnuninni. Fylgi Vinstri grænna hafði hins vegar verið að lækka síðan í byrjun apríl samkvæmt könnunum Gallup, úr u.þ.b. 10% í 6% í lokakönnun, en flokkurinn fékk 4,58% atkvæða í kosningum og fékk því minna fylgi en Sósíalistaflokkurinn. Fylgi Pírata reyndist að sama skapi minna en könnun Gallup gerði ráð fyrir. Fylgi Pírata er hlutfallslega meira meðal ungs fólks en eldra en það hefur sýnt sig að yngra fólk er ólíklegra til að kjósa en eldra fólk. Þetta gæti haft áhrif á mun kannana og kosninga.
Hér er ekki tæmandi upptalning á þeim þáttum sem geta haft áhrif á úrslit kosninga en ljóst er að margt getur haft áhrif og heildarniðurstaðan úr samanburði á úrslitum kosninga og síðustu könnun Gallup verður að teljast almennt mjög góð. Gallup mun eftir sem áður leggja sig fram um að veita almenningi áreiðanlegar upplýsingar um fylgi stjórnmálaflokka fyrir kosningar og er stöðugt að leita leiða til að bæta nákvæmni niðurstaðna.