Nú eru jólin að renna sitt skeið og verða brátt kvödd í bili. Jólin eru tími hefða og jólavenjur landsmanna þessi jólin voru að flestu leyti svipaðar og í gegnum árin. Einhverjar hefðir hafa þó tekið breytingum og heimsfaraldurinn hafði áhrif á sumar þeirra.
Í samkomutakmörkunum í heimsfaraldrinum var minna um að fólk færi í jólaboð, á jólahlaðborð, tónleika og jólaböll. Strax fyrir tveimur árum var hlutfall þeirra sem fóru í jólaboð orðið eins og áður. Hlutfall þeirra sem fóru á jólahlaðborð og tónleika var í fyrra orðið svipað og áður, og þessi jól er hlutfall þeirra sem fara á jólaball orðið svipað og fyrir heimfaraldur.
Sú hefð að vera með aðventuljós með sjö ljósum á heimilinu hefur verið á stöðugu undanhaldi síðan athuganir Þjóðarpúlsins á jólavenjum landsmanna hófust fyrir 13 árum. Þá voru 62% landsmanna með slík ljós en hlutfallið er nú komið niður í 38%.
Karlar eru líklegri en konur til að vera með aðventuljós, fólk yfir sextugu er frekar með þau en yngra fólk og íbúar landsbyggðarinnar frekar en höfuðborgarsvæðisins.
Þeim sem fara í kirkju fyrir eða um jólin hefur einnig farið heldur fækkandi gegnum árin. Þar til fyrir um sex árum fór um þriðjungur landsmanna í kirkju um jólin en nú gerir um fimmtungur það.
Fólk yfir fimmtugu fer frekar í kirkju en yngra fólk.
Mesta breytingin heufr verið á þeirri hefð að senda jólakort með hefðbundnum pósti. Fyrir 13 árum sendu um þrír af hverjum fjórum landsmönnum jólakort í pósti en hlutfallið hefur lækkað jafnt og þétt og nú sendir um einn af hverjum tíu jólakort í pósti.
Fólk yfir sextugu er líklegra til að senda jólakort í pósti en yngra fólk og fólk yfir sjötugu er líklegast til þess.
Spurt var:
- Vinsamlegast merktu við þau atriði sem eiga við um þig fyrir eða um jólin í ár. Atriðin birtust í tilviljunarkenndri röð og má sjá þau á myndinni að ofan.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 15. desember 2023 til 1. janúar 2024. Heildarúrtaksstærð var 1.699 og þátttökuhlutfall var 50,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Notkun á efni Þjóðarpúls Gallup og tilvitnun í það er heimil svo lengi sem heimilda er getið.
Útgefið af: Gallup - Lynghálsi 4, 110 Reykjavík. Sími: 540 1200. Netfang: sigrun.drifa@gallup.is.
Umsjón með útgáfu: Sigrún Drífa Jónsdóttir og Jón Karl Árnason.
Ábyrgðarmaður: Jóna Karen Sverrisdóttir © Íslenskar markaðsrannsóknir 1993. © Gallup á Íslandi 2015. Allur réttur áskilinn.