Jólin eru tími hefða og jólavenjur landsmanna hafa að flestu leyti verið svipaðar gegnum árin. Einhverjar hefðir eru þó á undanhaldi og heimsfaraldurinn hafði áhrif á aðrar. Hér getur þú séð þróun 24 jólahefða meðal íslensku þjóðarinnar: Puls_0123_Jolahald.pdf, en helstu breytingar voru eftirfarandi:

Jólakort

Ríflega 13% sendu jólakort með hefðbundnum pósti. Í fyrra var hlutfallið 18% en það hefur minnkað jafnt og þétt síðan fyrir 12 árum þegar 74% sendu jólakort með pósti.

Tónleikar

Nær 38% fóru á tónleika fyrir- eða um jólin. Hlutfallið er farið að nálgast það sem það var fyrir heimsfaraldur en það fór niður í 17% í hitteðfyrra og var 32% í fyrra. Síðustu tíu ár fyrir faraldurinn var hlutfallið hins vegar á bilinu 43-56%.

Jólaball

Tæplega 19% fóru á jólaball (jólatrésskemmtun fyrir börn). Hlutfallið nálgast það sem það var fyrir heimsfaraldur en það fór niður í 3% í hitteðfyrra og var 10% í fyrra. Síðustu tvö ár fyrir faraldurinn var hlutfallið 23-24% en síðustu átta ár þar á undan á bilinu 27-30%

Kirkja

Tæplega fimmtungur landsmanna fór í kirkju fyrir- eða um jólin. Það er svipað hlutfall og í fyrra og fyrir heimsfaraldur en í hitteðfyrra fór hlutfallið niður í 12%. Á árunum 2010-2016 var það hærra eða á bilinu 29-34%.

Smákökur

Hátt í 59% bökuðu smákökur fyrir jólin. Það er svipað hlutfall og undanfarin ár fyrir utan í hitteðfyrra í faraldrinum þegar það fór upp í 71%.

Jólahlaðborð

Rúmlega 48% fóru á jólahlaðborð. Það er svipað og fyrir faraldurinn þegar það var á bilinu 48-57%. Í hitteðfyrra fór hlutfallið niður í 10% og í fyrra var það 31%.

Jólaboð

Um 82% héldu- eða fóru í jólaboð. Það er sama hlutfall og í fyrra en í hitteðfyrra í faraldrinum var hlutfallið 54%.