Almennt voru niðurstöður helstu viðhorfskannana sem gerðar voru rétt fyrir nýafstaðnar borgarstjórnarkosningar nokkuð nærri úrslitum kosninganna.
Meðalfrávik nýjustu kosningakönnunar Gallup sem birt var 13. maí (sjá hér) frá niðurstöðum kosninga er aðeins 1,2, prósentustig. Þegar eingöngu eru skoðaðir þeir flokkar sem náðu fulltrúa inn í borgarstjórn er meðalfrávikið örlítið hærra, eða 1,6 prósentustig. Þetta teljast lítil frávik og er meðalfrávik Gallup lægst af þeim kannanafyrirtækjum sem birtu fylgiskannanir nú fyrir kosningar. Meðalfrávik voru hæst hjá tveimur stærstu flokkunum, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, eða um 3,3 prósentustig. Niðurstöður könnunar Gallup voru innan vikmarka hjá öllum flokkum nema þessum tveimur.
Síðustu daga mælingar Gallup kom fram stígandi hækkun á fylgi Framsóknarflokks. Þessi hækkun flokksins endurspeglaðist í úrslitum kosninga.
Það er vandkvæðum háð að spá fyrir um úrslit kosninga og hafa þarf í huga að í viðhorfskönnunum er áherslan á að mæla viðhorf á ákveðnum tíma frekar en að spá fyrir um kosningahegðun. Mælingar Gallup sýna að stórt hlutfall kjósenda ákveður á kjördag hvaða flokk það kýs, eða á bilinu 22-29% kjósenda. Breytingar geta því orðið á viðhorfi fólks frá því síðasta könnun er gerð og þar til kosið er. Leiða má líkum að því að meiri breytingar geti orðið á lokametrunum eftir því sem flokkar í framboði eru fleiri og munur á málefnum minni.
Á Íslandi hefur tíðkast sú hefð að síðustu umræður leiðtoga flokkanna fara fram kvöldið fyrir kosningar og er áhorf á þann þátt talsvert. Frammistaða frambjóðenda í þættinum getur því haft áhrif á val kjósenda.
Ljóst er að margt getur haft áhrif á úrslit kosninga og heildarniðurstaðan úr samanburði á úrslitum kosninga og síðustu könnun Gallup verður að teljast almennt mjög góð. Gallup mun eftir sem áður leggja sig fram um að veita almenningi áreiðanlegar upplýsingar um fylgi stjórnmálaflokka fyrir kosningar og er sífellt að þróa aðferðir til að bæta nákvæmni niðurstaðna.