Almennt voru niðurstöður helstu viðhorfskannana sem gerðar voru rétt fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar nokkuð nærri úrslitum kosninganna.
Þegar nýjasta kosningakönnun Gallup sem birt var 27. október er borin saman við niðurstöður kosninga sést að meðalfrávik í könnun Gallup er aðeins 1,2 prósentustig.
Þegar eingöngu eru skoðaðir þeir flokkar sem buðu fram á landsvísu er meðalfrávikið örlítið hærra, eða 1,3 prósentustig, en þegar skoðaðir eru tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, er meðalfrávikið aðeins 0,23 prósentustig. Þetta teljast lítil frávik og er meðalfrávik Gallup lægst í öllum þessum tilfellum af þeim könnunarfyrirtækjum sem birtu kosningakannanir nú fyrir kosningar.
Stórt hlutfall kjósenda ákveður sig á kjördag
Mælingar Gallup sýna að stórt hlutfall kjósenda ákveður á kjördag hvaða flokk það kýs. Í alþingiskosningunum í fyrra ákváðu 29% kjósenda sig á kjördag og 26% í alþingiskosningunum 2009. Það er því ljóst að breytingar geta orðið á viðhorfi fólks frá því síðasta könnun er gerð og þar til kosið er. Leiða má líkum að því að meiri breytingar geti orðið á lokametrunum eftir því sem flokkar í framboði eru fleiri og liggja nær hver öðrum málefnalega.
Ýmislegt getur orðið til þess að breyta viðhorfi fólks en á Íslandi hefur tíðkast sú hefð að síðustu umræður leiðtoga flokkanna fara fram kvöldið fyrir kosningar og er áhorf á þann þátt talsvert. Þar sem stór hluti fólks gerir endanlega upp hug sinn á kjördag getur frammistaða frambjóðenda í þættinum haft áhrif á hug kjósenda.
Hugsanlega má skýra frávik könnunar Gallup frá úrslitum kosninganna að einhverju leyti með tilvísun í leiðtogaumræðurnar kvöldið fyrir kosningar en mest voru frávikin hjá Flokki fólksins og Samfylkingunni. Fylgi Flokks fólksins hafði mælst töluvert hærra einum til tveimur mánuðum fyrir kosningar en í síðustu mælingum og má því teljast líklegt að flokkurinn hafi átt inni lausafylgi hjá fólki sem mögulega gat hugsað sér að styðja hann. Frávik könnunarinnar frá niðurstöðum kosninga var á hinn bóginn nánast ekkert hjá Sjálfstæðisflokki og lítið hjá Pírötum og Vinstri grænum.
Hér er ekki tæmandi upptalning á þeim þáttum sem geta haft áhrif á úrslit kosninga en ljóst er að margt getur haft áhrif og heildarniðurstaðan úr samanburði á úrslitum kosninga og síðustu könnun Gallup verður að teljast almennt mjög góð. Gallup mun eftir sem áður leggja sig fram um að veita almenningi áreiðanlegar upplýsingar um fylgi stjórnmálaflokka fyrir kosningar og er stöðugt að leita leiða til að bæta nákvæmni niðurstaðna.