Samkvæmt niðurstöðum úr nýrri könnun Gallup hefur 25% fólks orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á einhverjum tímapunkti. Könnunin var í nóvember 2017 meðal Viðhorfahópsins. Hlutfallið sem hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni er töluvert hærra meðal kvenna, eða 41%, samanborið við 12% meðal karla.* Fólk í yngri aldurshópum hefur frekar orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en fólk á aldrinum 35 ára eða eldra. Hæst er hlutfallið í hópi þeirra sem eru 18-24 ára, eða 55% meðal kvenna og 23% meðal karla.

Sá munur sem fram kemur milli aldurshópa getur komið fram af mörgum ástæðum. Eins og fram kemur er tíðni kynferðislegrar áreitni á síðustu 12 mánuðum mest meðal 18-24 ára. Alvarleiki þessarar áreitni er mismunandi og hugsanlegt að þau atvik sem verið hafa tiltölulega lítilvæg falli smám saman í gleymskunnar dá. Önnur skýring er að yngra fólk sé betur meðvitað um kynferðislega áreitni en þeir sem eldri eru. Fleiri skýringar eru þó mögulegar.

Hlutfall kynfersðilegrar áreitni í starfi

Ef litið er til rannsókna erlendis má sjá sambærilegar niðurstöður og þær sem sjá má hér að ofan. Gallup í Bandaríkjunum gerði könnun í lok október 2017 og samkvæmt þeim niðurstöðum hafa 42% kvenna og 11% karla orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Könnun frá BBC í Bretlandi sem var gerð um svipað leyti sýndi að 53% kvenna og 20% karla höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í námi eða starfi. Athugið að samanburð milli kannana ber að túlka með fyrirvara þar sem orðalag spurninga og skilgreining á kynferðislegri áreitni var ólík.

5% launþega hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á sl. 12 mánuðum

Launþegar voru spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á síðastliðnum 12 mánuðum. Rúmlega 5% svöruðu spurningunni játandi, annað hvort já, örugglega eðajá, líklega, þar af 8% kvenna og 3% karla.

Um könnunina

Gallup gerir skoðanakönnun vikulega meðal Viðhorfahóps Gallup. Í skoðanakönnun sem Gallup gerði í október var meðal annars spurt um kynferðislega áreitni á vinnumarkaði. Úrtakið var 1.392 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup og var svarhlutfall 57,3%. Könnunin fór fram dagana 8. - 17. nóvember 2017.

Kynferðisleg áreitni var skilgreind með eftirfarandi hætti

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Heimildir

http://www.bbc.com/news/uk-41741615
http://news.gallup.com/poll/221216/concerns-sexual-harassment-higher-1998.aspx

*Tölur voru leiðréttar eftir fyrstu útgáfu fréttar.