Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup er meirihluti landsmanna óánægður með búvörusamninga sem samþykktir voru á Alþingi nýverið, eða 55% þeirra sem taka afstöðu. Nær 32% segjast hvorki ánægð né óánægð og ríflega 13% segjast ánægð með þá.
Karlar eru ánægðari með samningana en konur, eldra fólk ánægðara með þá en það yngra og íbúar landsbyggðarinnar ánægðari en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru síður ánægðir með samningana en þeir sem hafa minni menntun að baki.
Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru mun ánægðari með samningana en þeir sem kysu aðra flokka, og að sama skapi eru þeir sem styðja ríkisstjórnina ánægðari með þá en þeir sem styðja hana ekki.
*1 Vegna námundunar í mynd virðist summa óánægðra vera 54% en hún er í raun 55%.
Spurt var:
- Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með búvörusamninga sem samþykktir voru á Alþingi nýverið?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 21. - 28. september 2016. Heildarúrtaksstærð var 1.410 og þátttökuhlutfall var 59,6%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.