Það hefur væntanlega farið fram hjá fáum að sýking af völdum kórónaveiru sem er kennd við Wuhanhérað í Kína, þar sem hún er talin eiga upptök sín, hefur breiðst út í Kína og greinst í öðrum löndum, m.a. í Evrópu. Þegar könnunin fór af stað höfðu tæplega 8.000 tilfelli greinst og tæplega 200 látist af völdum veirunnar en nú þegar henni var að ljúka hafa rúmlega 43.000 tilfelli greinst og ríflega 1.000 látist, en ekki er enn til bóluefni eða lækning við veirunni.
Ótti við að veiran berist til landsins
Þjóðin skiptist í tvær jafnar fylkingar þegar kemur að ótta við að Wuhan-veiran berist til Íslands. Hátt í þriðjungur óttast það mikið og sama hlutfall óttast það lítið. Ríflega þriðjungur segist svo hvorki óttast það mikið né lítið.
Konur óttast frekar en karlar að veiran berist til landsins og íbúar landsbyggðarinnar óttast það meira en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn ef gengið yrði til alþingiskosninga í dag eru líklegri til að óttast það mikið en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem óttast mest að veiran berist til landsins eru hins vegar þeir sem myndu skila auðu eða ekki kjósa. Þeir sem kysu Pírata eru líklegri til að óttast það lítið en þeir sem kysu aðra flokka.
Til fróðleiks má bera niðurstöðurnar saman við ótta landsmanna í febrúar 2006 við að fuglaflensa bærist til landsins en hún var mikið í umræðunni á þeim tíma. Veiran sem veldur henni berst í menn gegnum fugla en óttast var að hún gæti stökkbreyst þannig að hún færi að smitast milli manna og hún er sú tegund inflúensu sem á undanförnum árum hefur þótt líklegust til að valda heimsfaraldri. Á þessum tíma höfðu tæplega 200 manns smitast af henni og um helmingur þeirra látist. Þá óttaðist rúmlega fjórðungur þjóðarinnar mikið að flensan bærist til landsins en ríflega sex af hverjum tíu óttuðust það lítið. Um 12% óttuðust það hvorki mikið né lítið.
Ótti við að smitast
Fimmtungur landsmanna óttast mikið að smitast af veirunni en nær helmingur óttast það lítið. Ríflega þrír af hverjum tíu óttast það svo hvorki mikið né lítið.
Konur óttast frekar en karlar að smitast af veirunni. Fólk undir fertugu tekur skýrari afstöðu og er bæði líklegra en eldra fólk til að segjast óttast það mikið og lítið, en ólíklegra til að segjast hvorki óttast það mikið né lítið. Fólk óttast síður að smitast af veirunni eftir því sem það hefur meiri menntun að baki. Þeir sem kysu Vinstri græn, Framsóknarflokkinn eða Miðflokkinn eru líklegri til að óttast það mikið en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem kysu Pírata eru hins vegar líklegri til að óttast það lítið en þeir sem kysu aðra flokka.
Þegar spurt var um fuglaflensu árið 2006 óttaðist einn af hverjum tíu mikið að smitast af henni en rúmlega átta af hverjum tíu óttuðust það lítið. Um 9% óttuðust það hvorki mikið né lítið.
Spurt var:
- Óttast þú mikið eða lítið að Wuhan-veira (öðru nafni kórónaveira eða 2019-nCoV) berist til Íslands?
- En óttast þú mikið eða lítið að smitast af Wuhan-veiru (öðru nafni kórónaveiru eða 2019-nCoV)?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 30. janúar - 10. febrúar 2020. Þátttökuhlutfall var 56,5%, úrtaksstærð 1.580 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.