Helstu breytingar á fylgi flokka í kjölfar kosninga eru þær að Samfylkingin mælist nú með um 5 prósentustigum meira fylgi en hún fékk í nýafstöðnum alþingiskosningum og Miðflokkurinn um 4 prósentustigum minna fylgi en hann fékk í kosningum.
Tæplega 17% segjast nú myndu kjósa Samfylkinguna en tæplega 7% Miðflokkinn. Munur á fylgi annarra flokka og niðurstöðum kosninga í október síðastliðnum er innan vikmarka, en 24% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, liðlega 16% Vinstri græn, rösklega 10% Pírata og sama hlutfall Framsóknarflokkinn. Liðlega 7% segjast myndu kjósa Viðreisn, ríflega 6% Flokk fólksins og rúmlega 2% aðra flokka, þar af rúmlega 1% kjósa Bjarta framtíð.
Liðlega 5% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og nær 5% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum:
- „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?”
- Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu”?
- Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?”
Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 8. til 30. nóvember 2017. Heildarúrtaksstærð var 3.991 og þátttökuhlutfall var 57,8%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,4-1,8%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.