Nýleg könnun Gallup meðal almennings bendir til þess að um 14% þjóðarinnar finnur sápubragð af kóríander, kryddjurt sem er til að mynda oft notuð í mexíkanskri og indverskri matargerð.
Þessi bragðupplifun hefur verið rannsökuð erlendis og er að hluta til talin vera af genatískum ástæðum.
Þrátt fyrir að huti þjóðarinnar finni sápubragð af kóríander eru þó mun fleiri sem líkar bragðið af kryddjurtinni vel, en 51% þjóðarinnar finnst kóríander gott, 30% þykir það hvorki gott né vont, á meðan 19% finnst kóríander vont. Rúmlega 71% þeirra sem finnst kóríander vont finnur sápubragð af kóríander, samtals um 14% þjóðarinnar.
Að okkur vitandi var þetta fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi, en möguleikar eru á frekari rannsóknum á efninu.
Til að mynda má þess geta að einungis þau sem sögðu að þeim þætti kóríander vont fengu spurninguna um hvort fólk fyndi sápubragð af kóríander.
Því er enn órannsakað hvort annar hluti þjóðarinnar finnur sápubragð af kóríander en finnst það bara gott. Einnig er órannsakað hvort hluti þjóðarinnar finni kóríanderbragð af sápu.
Rannsóknarstofnunum, háskólasamfélaginu og öðrum rannsakendum sem hafa áhuga á frekari kóríanderrannsóknum í samstarfi við Gallup er bent á að hafa samband.
Upplýsingar um könnunina:
Spurt var:
- Hversu gott eða vont finnst þér kóríander (cilantro)?
- Þeir sem fannst kóríander vont voru síðan spurðir: Finnur þú sápubragð af kóríander?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 26. maí til 8. júní 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.696 og þátttökuhlutfall var 50,8%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.