Afar skiptar skoðanir eru meðal almenning á því hver eru fýsilegustu viðbrögðin við því vandamáli sem uppi er varðandi talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi og virðist skoðun fólks að miklu leyti tengjast því hvaða flokk það aðhyllist.
Flestir telja að seinni talning atkvæða ætti að gilda, eða nær 37%, á meðan um 28% telja að fyrri talning atkvæða ætti að gilda og tæplega 24% telja að kjósa ætti aftur í Norðvesturkjördæmi. Aðeins tæplega 12% telja að kjósa ætti aftur á landsvísu.
Munur er á afstöðu fólks eftir kyni og er hann m.a. áhugaverður í ljósi þess að endurtalning hafði áhrif á kynjahlutfall þingmanna. Konur telja frekar en karlar að fyrri talning ætti að gilda á meðan karlar telja frekar en konur að seinni talning ætti að gilda. Konur telja svo frekar en karlar að kjósa ætti aftur í Norðvesturkjördæmi á meðan karlar telja frekar en konur að kjósa ætti aftur á öllu landinu.
Fólk yfir fertugu telur frekar en yngra fólk að seinni talning atkvæða ætti að gilda en fólk undir fertugu telur frekar en eldra fólk að kjósa ætti aftur, hvort sem er í Norðvesturkjördæmi eða á landsvísu.
Mestur munur er á skoðunum fólks eftir því hvaða flokk það aðhyllist. Þeir sem kusu miðflokkinn eru líklegastir til að telja bestu lausnina þá að fyrri talning atkvæða gildi en 42% þeirra telja það. Kjósendur Sósíalistaflokksins eru ólíklegatir til þess en 5% þeirra telja að fyrri talning ætti að gilda.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru líklegastir til að telja bestu lausnina þá að seinni talning atkvæða gildi en 69% þeirra telja það. Þeir sem kusu Pírata eru ólíklegastir til þess en 8% þeirra telja að seinni talning ætti að gilda, og þá kjósendur Samfylkingarinnar en tæplega 11% þeirra telja að seinni talning ætti að gilda.
Kjósendur Samfylkingarinnar telja helst að kjósa ætti aftur í Norðvesturkjördæmi, en nær 45% þeirra telja það, þá kjósendur Flokks fólksins, eða 41% og þar á eftir kjósendur Sósíalistaflokks Íslands, nær 38%, og Pírata, rúmlega 37%. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru ólíklegastir til að vilja endurkosningu í kjördæminu en rösklega 7% þeirra telja þá lausn besta.
Kjósendur Sósíalistaflokksins telja helst að kjósa ætti aftur á landsvísu en rúmlega 37% þeirra eru á því. Fæstir kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja það, eða innan við 1%.
Ekki er munur á svörum fólks eftir því í hvaða kjördæmi landsins það hefur búsetu.
Framkvæmd kosninga
Helmingur landsmanna telur æskilegra að alþingiskosningar á Íslandi verði framvegis rafrænar en helmingur telur æskilegra að þær fari fram með svipuðum hætti og hingað til.
Kjósendur Viðreisnar vilja helst að kosningar verði framvegis rafrænar en kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja helst að þær fari fram með sambærilegum hætti og hingað til. Athygli vekur að ekki er munur á viðhorfi fólks eftir aldri.
Spurt var:
- Hver eftirfarandi viðbragða eru fýsilegust að þínu mati, við því vandamáli sem upp er komið varðandi talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í nýafstöðnum alþingiskosningum?
- Hvort telur þú æskilegra að alþingiskosningar á Íslandi fari framvegis fram með svipuðum hætti og hingað til eða verði rafrænar?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 12. Október 2021. Heildarúrtaksstærð var 1.629 og þátttökuhlutfall var 52,9%. Einstaklingar í´úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.