Þann 10. apríl var Stjórnendaráðgjöf Gallup með morgunverðarfund þar sem kastljósinu var beint að áskorunum stjórnenda í breyttum heimi og áhrifum gervigreindar á stjórnun og stjórnendur. Stjórnendaverðlaun Gallup voru afhent, í fyrsta sinn, þeim stjórnendum sem hafa sýnt framúrskarandi árangur – bæði í helgun starfsfólks og rekstrarárangri.
Helgun starfsfólks (e. employee engagement) vísar til þátttöku þess og áhuga á vinnu sinni og vinnustað. Hún nær lengra en almenn starfsánægja og einblínir á tólf lykilþætti sem spá fyrir um árangur teymis, svo sem framleiðni, starfsmannaveltu, öryggi og gæði.
Fyrir stjórnendur er mikilvægt að skilja og efla helgun starfsfólks vegna þess að:
- Helgun skilar betri rekstrarárangri, óháð atvinnugreinum og efnahagsástandi.
- Helgað starfsfólk er afkastameira og ólíklegra til að hætta störfum.
- Stjórnendur skapa skilyrðin fyrir helgun og skýra 70% af helgun teymis.
Verðlaunahafar voru valdir úr hópi stjórnenda í efstu 10% helgunar í alþjóðlegum gagnabanka Gallup en hann inniheldur 63 milljónir svara. Þau sem hlutu viðurkenninguna eru:
- Heiður Huld Hreiðarsdóttir hjá Sjóvá.
- Sigurður Arnar Hermannsson hjá Íslandsbanka.
- Iða Brá Benediktsdóttir hjá Arion banka.
- Hafdís Þóra Hafþórsdóttir hjá Nordic Visitor.
Við óskum þeim Hafdísi, Sigurði, Heiði og Iðu hjartanlega til hamingju með árangurinn og þökkum þeim fyrir öflugt starf og innblástur. Óskum einnig tryggum viðskiptavinum okkar til hamingju með framúrskarandi stjórnendur sína.

Þökkum við einnig þeim fjölmörgu sem sendu inn tilnefningar og þeim sem sáu sér fært að fagna með okkur.
