Gallup mælir fjölmiðlanotkun landsmanna á hverjum einasta degi. Þegar niðurstöður síðustu viku (9.-15. mars 2020) eru skoðaðar má sjá mikla aukningu á fjölmiðlanotkun, sér í lagi hvað varðar neyslu á fréttum og fréttatengdu efni.

118.000 áhorfendur daglega á kvöldfréttir sjónvarpsstöðvanna

Í síðustu viku horfðu að meðaltali ríflega 118.000 manns hvern dag á kvöldfréttir RÚV og/eða kvöldfréttir Stöðvar 2 en það er um 20% aukning frá því í febrúar og 27% aukning sé litið til sama tíma í fyrra. Í síðustu viku má sjá einstaka kvöldfréttatíma þar sem hart nær helmingur landsmanna 12 ára og eldri horfðu eitthvað. Aukninguna má greina í öllum aldurshópum.

66.000 hlustendur daglega á hádegisfréttir útvarpsstöðvanna

Á meðaldegi í síðustu viku hlustuðu tæplega 66.000 manns á hádegisfréttir Bylgjunnar og/eða hádegisfréttir RÚV sem er aukning um 20% frá því í febrúar. Karlar eru heldur líklegri en konur til að hlusta á útvarpsfréttir.

Daglegum notendum fréttanetmiðla fjölgar um 20%

Mun fleiri notendur heimsóttu fréttanetmiðla í síðustu viku en að meðaltali í febrúar. Leita þarf þrjú ár aftur í tímann til að finna jafn mikla notkun á íslenskum netmiðlum.

Nánari upplýsingar um fjölmiðlaneyslu landsmanna, eins og áhorf og hlustun á einstakar stöðvar, lestur dagblaða og notkun á einstaka netmiðlum má finna hér: https://www.gallup.is/nidurstodur/fjolmidlar/