Íslendingar eru svartsýnir þegar kemur að friðarviðræðum Rússa og Úkraínumanna. Aðeins ríflega eitt af hverjum tíu er bjartsýnt á að viðræðurnar beri árangur en rúmlega tvö af hverjum þremur eru svartsýn á það. Rösklega fimmtungur er hvorki bjartsýnn né svartsýnn. Taka ber fram að könnunin var gerð dagana 18. – 29. mars en að kvöldi 29. mars bárust fréttir af jákvæðri þróun friðarviðræðnanna.
Þau sem kysu Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru bjartsýnust á að friðarviðræður Rússa og Úkraínumanna beri árangur en þau sem kysu Vinstri græn, Pírata eða Framsóknarflokkinn eru svartsýnust á það.
Landsmenn eru einnig hóflega bjartsýnir þegar kemur að refsiaðgerðum gegn Rússum en bjartsýnin hefur þó verið að aukast. Nær helmingur telur ólíklegt að alþjóðasamfélagið geti með efnahagslegum- eða öðrum refsiaðgerðum stöðvað hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu á meðan tæplega þriðjungur telur það líklegt og hátt í fimmtungur hvorki líklegt né ólíklegt. Í byrjun mánaðarins töldu 28% líklegt að aðgerðirnar bæru árangur og fyrir mánuði var hlutfallið 22%.
Útbreiðsla átakanna
Þeim fækkar sem telja að átökin muni breiðast út en rúmlega helmingur telur nú líklegt að hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu muni leiða til hernaðarátaka í öðrum löndum. Nær fjórðungur telur það ólíklegt og hátt í fjórðungur hvorki líklegt né ólíklegt. Í byrjun mánaðarins töldu 64% líklegt að átökin breiddust út og fyrir mánuði síðan töldu sex af hverjum tíu það líklegt.
Konur telja líklegra en karlar að átökin breiðist út til fleiri landa, og fólk telur það almennt líklegra eftir því sem það er yngra. Þau sem hafa meiri menntun en minni eru einnig örlítið líklegri til að telja það. Þau sem kysu Vinstri græn eða Pírata ef kosið yrði til Alþingis telja það líklegra en þau sem kysu aðra flokka, en þau sem kysu Samfylkinguna telja það ólíklegast.
Áhrif á Íslendinga
Ríflega 43% landsmanna telja að innrás Rússlands í Úkraínu muni hafa mikil áhrif á líf sitt. Það er sama hlutfall og í byrjun mánaðarins en þá hafði það hækkað frá lokum síðasta mánaðar. Hátt í þrjú af hverjum tíu telja að innrásin muni hafa lítil áhrif á líf sitt og svipað hlutfall hvorki líklegt né ólíklegt.
Þeim fækkar frá því í byrjun mánaðar sem finna fyrir óöryggi eða ótta vegna ástandsins. Nær 55% segjast þó gera það á meðan rúmlega fjórðungur segist ekki gera það og nær fimmtungur hvorki né. Í byrjun mánaðarins sögðust nær 63% finna fyrir óöryggi eða ótta en ríflega helmingur í mælingunni þar á undan.
Konur segjast frekar en karlar finna fyrir óöryggi eða ótta vegna ástandsins. Fólk er almennt líklegra til að gera það eftir því sem það er eldra, og fólk yfir sextugu líklegast. Þau sem kysu Vinstri græn ef kosið yrði til Alþingis í dag finna helst fyrir óöryggi vegna ástandsins en síst þau sem kysu Pírata.
Spurt var:
- Hversu bjartsýn(n) eða svartsýn(n) ert þú á að friðarviðræður Rússa og Úkraínumanna beri árangur?
- Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að alþjóðasamfélagið geti með efnahagslegum- og öðrum refsiaðgerðum stöðvað hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu?
- Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu muni leiða til hernaðarátaka í öðrum löndum?
- Hversu mikil eða lítil áhrif telur þú að innrás Rússlands í Úkraínu muni hafa á líf þitt?
- Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu þegar kemur að atburðum líðandi stundar tengdum innrás Rússa í Úkraínu?
- Ég finn fyrir óöryggi og/eða ótta vegna ástandsins
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 18. til 29. mars 2022. Heildarúrtaksstærð var 1.653 og þátttökuhlutfall var 51,5%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.