Landsmenn eru orðnir bjartsýnni á það nú en í byrjun að alþjóðasamfélagið geti með efnahagslegum- og öðrum refsiaðgerðum stöðvað hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu. Þegar spurt var í lok febrúar og byrjun mars töldu 22% það líklegt á meðan 61% töldu það ólíklegt. Nú telja hins vegar 28% það líklegt en 52% ólíklegt. Konur eru bjartsýnni á það en karlar.

Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að alþjóðasamfélagið geti með efnahagslegum- og öðrum refsiaðgerðum stöðvað hernaðaraðgeðir Rússlands í Úkraínu

Munu átökin breiðast út?

Aðeins meiri svartsýni gætir hins vegar um líkur þess að átökin breiðast út. Um mánaðarmótin töldu sex af hverjum tíu líklegt að hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu myndu leiða til hernaðarátaka í öðrum löndum á meðan 26% töldu það ólíklegt. Nú telja hins vegar 64% það líklegt en 19% ólíklegt.

Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu muni leiða ti hernaðarátaka í öðrum löndum

Viðbrögð Úkraínumanna

Viðhorf landsmanna er óbreytt og enn afdráttarlaust þegar kemur að viðbrögðum Úkraínumanna. Rúmlega 93% þeirra sem taka afstöðu telja að úkraínsk stjórnvöld eigi ekki að fara að kröfum Rússa heldur veita mótspyrnu á meðan 7% telja að þau ættu að fara að kröfum Rússa og leggja niður vopn. Um þriðjungur tekur hins vegar ekki afstöðu til spurningarinnar.

Hvort eiga úkraínsk stjórnvöld að veita mótspyrnu eða leggja niður vopn

Karlar telja frekar en konur að Úkraínumenn ættu að fara á kröfum Rússa og leggja niður vopn. Fólk yfir fimmtugu telur það sömuleiðis frekar en þau sem yngri eru.

Áhrif á Íslendinga

Þeim landsmönnum sem telja að innrás Rússlands í Úkraínu muni hafa mikil áhrif á líf sitt fjölgar talsvert, en rúmlega 43% þeirra sem taka afstöðu telja það á meðan þrír af hverjum tíu telja að hún muni hafa lítil áhrif. Um mánaðamótin taldi tæplega þriðjungur að innrásin myndi hafa mikil áhrif á líf sitt en 38% að hún myndi hafa lítil áhrif. Nær 13 % taka ekki afstöðu til spurningarinnar.

Hversu mikil eða lítil áhrif telur þú að innrás Rússlands í Úkraínu muni hafa á líf þitt.JPG

Fólk milli fertugs og fimmtugs er líklegast til að telja að innrásin muni hafa mikil áhrif á líf sitt en fólk undir þrítugu er ólíklegast til þess.

Þeim fjölgar einnig talsvert sem segjast finna fyrir óöryggi og/eða ótta vegna ástandsins. Um mánaðamótin sagðist ríflega helmingur landsmanna gera það á meðan 28% sögðust ekki gera það, en nú er hlutfall þeirra sem finna fyrir óöryggi eða ótta nær 63% og hlutfall þeirra sem segjast ekki gera það tæplega 23%.

Ég finn fyrir óöryggi og eða ótta vegna ástandsins í Úrkaínu

Konur eru mun líklegri en karlar til að segjast finna fyrir óöryggi eða ótta vegna ástandsins, og fólk með meiri menntun er sömuleiðis mun líklegra til þess en fólk með minni menntun að baki.

Spurt var:

  • Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að alþjóðasamfélagið geti með efnahagslegum- og öðrum refsiaðgerðum stöðvað hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu?
  • Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu muni leiða til hernaðarátaka í öðrum löndum?
  • Hversu mikil eða lítil áhrif telur þú að innrás Rússlands í Úkraínu muni hafa á líf þitt?
  • Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu þegar kemur að atburðum líðandi stundar tengdum innrás Rússa í Úkraínu?
    • Eg finn fyrir óöryggi og/eða ótta vegna ástandsins.
  • Hvor eftirfarandi fullyrðinga lýsir betur viðhorfinu þínu?
    • Úkraínsk stjórnvöld ættu að fara að kröfum Rússa og leggja niður vopn
    • Úkraínsk stjórnvöld ættu ekki að fara að kröfum Rússa heldur veita mótspyrnu

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. til 7. mars 2022. Heildarúrtaksstærð var 1.780 og þátttökuhlutfall var 50,1%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.