Gallup veitti Hugarafli styrk að upphæð 150.000 kr. nú á dögunum. Fyrir stuttu gerði Gallup könnun þar sem þátttakendur fengu gjafabréf að launum fyrir þátttöku sína en gátu valið að andvirði gjafabréfsins rynni til Hugarafls í staðinn. Fjöldi þátttakenda ákvað að ánafna sinni umbun til Hugarafls og er styrkurinn veittur fyrir hönd þessara þátttakenda.
Hugarafl er samtök fólks sem glímt hefur við geðraskanir. Fagfólk og notendur vinna saman á jafningjagrunni og með hugmyndafræði valdeflingar að leiðarljósi. Markmið Hugarafls er að hafa áhrif á geðheilbrigðisþjónustu og miðla þekkingu sem gagnast hefur fólki til að ná bata. Nánari upplýsingar um félagið má finna á hugarafl.is
Á meðfylgjandi mynd má sjá Árna Steingrímsson veita styrknum viðtöku fyrir hönd Hugarafls úr höndum Ólafs Elínarsonar sviðsstjóra markaðsrannsókna hjá Gallup.