Nokkrar breytingar eru á fylgi flokka nú í aðdraganda kosninga. Helsta breytingin frá síðustu mælingu er að fylgi Pírata og Vinstri grænna minnkar um nær þrjú prósentustig hjá hvorum flokki.
Liðlega 23% segjast myndu kjósa Pírata færu kosningar til Alþingis fram nú og rösklega 13% Vinstri græn. Að sama skapi eykst samanlagt fylgi framboða sem ekki eiga sæti á Alþingi, annarra en Viðreisnar, um tæplega fjögur prósentustig. Þannig segjast 2% myndu kjósa Íslensku þjóðfylkinguna, 1,3% Dögun, 0,7% Alþýðufylkinguna og 0,5% Flokk fólksins.Fylgi Viðreisnar eykst um tæplega tvö prósentustig milli mælinga en sú aukning er ekki tölfræðilega marktæk. Rúmlega 12% segjast myndu kjósa Viðreisn færu kosningar til Alþingis fram nú. Fylgi annarra flokka breytist lítið eða á bilinu 0,0-0,9%. Rúmlega 25% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rösklega 9% Framsóknarflokkinn, nær 9% Samfylkinguna og næstum 3% Bjarta framtíð.Tæplega 11% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og tæplega 7% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Stuðningur við ríkisstjórn
Stuðningur við ríkisstjórnina er nánast óbreyttur frá síðustu mælingu en rúmlega 38% segjast styðja ríkisstjórnina.
Spurt var:
- Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
- En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
- Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
- Styður þú ríkisstjórnina?
Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 31. ágúst til 14. september 2016. Heildarúrtaksstærð var 4.204 og
þátttökuhlutfall var 55,9%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,7-1,9%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.