Helmingur landsmanna er ánægður með nýskipaða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna en tæplega þriðjungur er óánægður með hana.
Fólk er að jafnaði ánægðara með stjórnina eftir því sem það er eldra. Fólk með hærri fjölskyldutekjur er einnig ánægðara með hana en tekjulægri. Eins og búast mátti við er mikill munur eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Ánægja með stjórnina er mest hjá þeim sem kysu Sjálfstæðisflokkinn en nær 92% þeirra eru ánægðir með hana, þá þeim sem kysu Framsóknarflokkinn, eða tæplega 84% en rösklega 71% þeirra sem kysu Vinstri græna. Ánægja með stjórnina er mun minni hjá þeim sem kysu aðra flokka en stjórnarflokkana en minnst hjá þeim sem kysu Sósíalistaflokkinn, svo þeim sem kysu Samfylkinguna og þá þeim sem kysu Pírata.
Val á ráðherrum
Nær 42% eru almennt ánægð með val á ráðherrum í nýrri ríkisstjórn, en 36% eru almennt óánægð með valið.
Fólk er almennt ánægðara með val á ráðherrum eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur og eins er munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis í dag. Ánægja með val á ráðherrum er mest hjá þeim sem kysu Sjálfstæðisflokkinn, eða ríflega 85%, þá þeim sem kysu Framsóknarflokkinn, en tvö af hverjum þremur sem kysu hann eru ánægð með val á ráðherrum, og svo þeim sem kysu Vinstri græn, en um helmingur þeirra er ánægður. Ánægja með val á ráðherrum er talsvert minni hjá þeim sem kysu aðra flokka en stjórnarflokkana en minnst hjá þeim sem kysu Sósíalistaflokkinn og þá þeim sem kysu Pírata eða Samfylkinguna. Um 77% þeirra sem eru ánægð með ríkisstjórnina eru ánægð með val á ráherrum hennar en rúmlega 2% þeirra sem eru óánægð með ríkisstjórnina.
Skipting ráðuneyta milli flokka
Fjögur af hverjum tíu eru ánægð með skiptingu ráðuneyta milli flokka á nýrri ríkisstjórn en tæplega þriðjungur óánægður.
Konur eru líklegri en karlar til að vera hvorki ánægðar né óánægðar með skiptingu ráðuneyta milli flokka. Fólk er almennt ánægðara með skiptingu ráðuneyta eftir því sem það er eldra og einnig eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur. Ríflega 83% þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði í dag eru ánægð með skiptingu ráðuneyta, sjö af hverjum tíu sem kysu Framsóknarflokkinn og 44% þeirra sem kysu Vinstri græn. Talsvert færri eru ánægð meðal þeirra sem kysu aðra flokka en þau sem kysu Sósíalistaflokkinn eru óánægðust, svo þau sem kysu Samfylkinguna og þá þau sem kysu Pírata. Þrjú af hverjum fjórum sem eru ánægð með ríkisstjórnina eru einnig ánægð með skiptingu ráðuneyta milli flokka en tæplega 2% þeirra sem eru óánægð með stjórnina. Nær 85% þeirra sem eru ánægð með val á ráðherrum eru ánægð með skiptingu ráðuneyta en tæplega 4% þeirra sem eru óánægð með val á ráðherrum.
Skipting verefna milli ráðuneyta
Miklar breytingar voru gerðar á ráðuneytum og verkefnaskiptingu milli þeirra hjá nýrri ríkisstjórn. Hátt í fjögur af hverjum tíu eru ánægð með skiptingu verkefna milli ráðneyta í nýrri stjórn en þrjú af hverjum tíu eru óánægð.
Karlar eru óánægðari en konur með skiptingu verkefna milli ráðuneyta en fólk er almennt ánægðara með hana eftir því sem það er eldra og eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur. Rösklega þrjú af hverjum fjórum sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eru ánægð með skiptinguna, 65% þeirra sem kysu Framsóknarflokkinn og helmingur þeirra sem kysu Vinstri græn en talsvert færri meðal þeirra sem kysu aðra flokka. Minnst ánægja er meðal þeirra sem kysu Sósíalistaflokkinn og næstminnst meðal þeirra sem kysu Pírata eða Samfylkinguna. Nær 72% þeirra sem eru ánægð með ríkisstjórnina eru ánægð með skiptingu verkefna milli ráðuneyta en tæplega 3% þeirra sem eru óánægð með stjórnina. Rösklega 77% þeirra sem eru ánægð með val á ráðherrum í nýrri ríkisstjórn eru ánægð með skiptingu verkefna milli ráðuneyta en ríflega 6% þeirra sem eru óánægð með val á ráðherrum. Rúmlega 84% þeirra sem eru ánægð með skiptingu ráðuneyta milli flokka eru ánægð með skiptingu verkefna milli ráðneyta en tæplega 6% þeirra sem eru óánægð með skiptingu ráðuneyta milli flokka.
Stjórnarsáttmáli
Nær 37% eru almennt ánægð með innihald stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar en tæplega 32% óánægð.
Konur eru líklegri en karlar til að vera hvorki ánægðar né óánægðar með innihald stjórnarsáttmálans. Þrjú af hverjum fjórum sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eru ánægð með stjórnarsáttmálann, rösklega helmingur þeirra sem kysu Framsóknarflokkinn eða Vinstri græn en mun færri meðal þeirra sem kysu aðra flokka. Minnst ánægja með sáttmálann er meðal þeirra sem kysu Sósíalistaflokkinn, svo meðal þeirra sem kysu Samfylkinguna og þá meðal þeirra sem kysu Pírata. Um tveir af hverjum þremur sem eru ánægð með ríkisstjórnina eru einnig ánægð með stjórnarsáttmálann en rúmlega 2% þeirra sem eru óánægðir með stjórnina. Sjö af hverjum tíu sem eru ánægðir með val á ráðherrum ríkisstjórnarinnar eru ánægð með sáttmálann en tæp 6% þeirra sem eru óánægð með val á ráðherrum. Nær 74% þeirra sem eru ánægð með skiptingu ráðuneyta milli flokka eru ánægð með nýja stjórnarsáttmálann en 55 þeirra sem eru óánægð með skiptingu ráðuneyta milli flokka. Sömuleiðis eru nær 74% þeirra sem eru ánægð með skiptingu verkefna milli ráðuneyta ánægð með nýja stjórnarsáttmálann en tæplega 4% þeirra sem eru óánægð með skiptingu verkefna milli ráðuneyta.
Stjórnarsamstarf
Hátt í þrjú af hverjum fjórum telja líklegt að ríkisstjórnarsamstarfið muni standa út kjörtímabilið en nær 17% telja það ólíklegt.
Karlar telja aðeins líklegra en konur að stjórnarsamstarfið muni standa út kjörtímabilið. Fólk undir þrítugu telur það ólíklegra en þau sem eldri eru. Íbúar höfuðborgarsvæðisins telja það líklegra en íbúar landsbyggðarinnar, og fólk með hærri fjölskyldutekjur telur það almennt líklegra en tekjulægri. Rúmlega 97% þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn telja líklegt að stjórnin haldi út kjörtímabilið og hátt í níu af hverjum tíu sem kysu Framsóknarflokkinn eða Vinstri græn. Þau sem kysu aðra flokka eru aðeins svartsýnni, þau sem kysu Sósíalistaflokkinn eru svartsýnust en 43% þeirra telja að samstarfið haldi út kjörtímabilið. Nær 96% þeirra sem eru ánægð með ríkisstjórnina telja líklegt að hún haldi velli en tæplega helmingur þeirra sem eru óánægð með hana. Hlutföllin eru svipuð þegar greint er eftir ánægju fólks með val á ráðherrum, skiptingu ráðuneyta milli flokka, skiptingu verkefna milli ráðuneyta og innihald stjórnarsáttmála.
Spurt var:
- Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú almennt með nýskipaða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna?
- Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú almennt með val á ráðherrum í nýrri ríkisstjórn?
- Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú almennt með skiptingu ráðuneyta milli flokka í nýrri ríkisstjórn?
- Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú almennt með skiptingu verkefna milli ráðuneyta í nýrri ríkisstjórn?
- Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú almennt með innihald stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar?
- Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna muni standa út kjörtímabilið?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 12. desember 2021. Heildarúrtaksstærð var 1.619 og þátttökuhlutfall var 52,5%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.