Traust almennings til nokkurra opinberra stofnana samfélagsins hefur verið kannað hjá Gallup um árabil* og birt opinberlega undir merkjum Þjóðarpúls Gallup. Traust til flestra stofnana sem mældar eru í Þjóðarpúlsi Gallup minnkar frá því í fyrra. Traust til heilbrigðiskerfisins og Seðlabankans minnkar mest, þá traust til Alþingis og þar á eftir traust til lögreglunnar og borgarstjórnar.
* Listinn yfir þær stofnanir sem eru mældar í Þjóðarpúlsi Gallup er langt frá því að vera tæmandi yfir opinberar stofnanir samfélagsins. Elstu mælingar Þjóðarpúlsins á trausti til stofnana eru frá árinu 1993.
Gallup á Íslandi mælir fleiri stofnanir og stendur forsvarsmönnum þeirra til boða að kaupa mælingar til að sjá hvar þær standa miðað við stofnanir sem eru mældar í Þjóðarpúlsi og fá auk þess ónafngreindan samanburð við aðrar mældar stofnanir.
Í gegnum tíðina hafa stofnanir sem eru ekki hluti af Þjóðarpúlsi Gallup mælst með bæði meira og minna traust en þær stofnanir sem niðurstöður eru sýndar fyrir hér.
Ítarlegar niðurstöður
Níu af hverjum tíu bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar, eða álíka margir og í fyrra, og mælist hún eins og áður með mest traust þeirra stofnana sem eru mældar í Þjóðarpúlsinum.
Háskóli Íslands og embætti forseta Íslands koma þar á eftir en 73% bera mikið traust til þeirra. Það er svipað hlutfall og í fyrra.
Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til lögreglunnar lækkar um níu prósentustig frá síðustu mælingu. Um 69% bera nú mikið traust til hennar og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan 2005.
Traust til heilbrigðiskerfisins minnkar enn meira, eða um 14 prósentustig, og er það mesta lækkun sem mælist í ár. Traust til heilbrigðiskerfisins hefur minnkað samtals um 22 prósentustig á síðustu tveimur árum. Fyrir það hafði traustið aukist mjög mikið svo það er sambærilegt nú og fyrir þremur árum, eða örskömmu áður en heimsfaraldurinn barst til landsins.
Rúmlega helmingur landsmanna bar mikið traust til ríkissáttasemjara þegar könnunin var gerð, sem er svipað hlutfall og þau tvö síðastliðnu ár sem Aðalsteinn Leifsson hefur gegnt embætti. Yfirstandandi kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins virðist þannig ekki hafa haft áhrif á traust almennings til hans. Könnunin hófst viku eftir að hann lagði fram miðlunartillögu í deilunni en lauk sama dag og Landsréttur hafnaði kröfu hans um afhendingu kjörskrár Eflingar og hann tilkynnti að hann myndi stíga til hliðar í deilunni.
Traust til umboðsmanns Alþingis minnkar um fimm prósentustig frá síðustu mælingu. Um 46% bera mikið traust til hans nú og hefur hlutfallið ekki mælst lægra í áratug.
Ríflega fjögur af hverjum tíu bera mikið traust til ríkissaksóknara. Hlutfallið hefur lækkað um sex prósentustig á síðustu tveimur árum og hefur ekki mælst jafn lágt í tólf ár.
Traust til Seðlabankans minnkar næstmest eða um 13 prósentustig og bera nú 39% mikið traust til bankans. Traust til hans hefur minnkað samtals um 23 prósentustig á síðustu tveimur árum en það jókst um 31% á árunum tveimur þar á undan. Áratuginn fyrir það hafði traust til bankans aukist jafnt og þétt frá hruni.
Um 37% bera mikið traust til dómskerfisins og er það svipað hlutfall og í síðustu mælingu.
Þjóðkirkjan nýtur mikils trausts 27% landsmanna og hefur hlutfallið lækkað um fimm prósentustig á síðustu tveimur árum. Traust til kirkjunnar hefur ekki mælst lægra síðan mælingar hófust fyrir þremur áratugum en það hefur minnkað jafnt og þétt á þessum tíma.
Fjórðungur ber mikið traust til Alþingis. Hlutfall þeirra sem bera traust til þess lækkar um 11 prósentustig frá í fyrra en árin á undan hafði það hækkað talsvert.
Um 18% bera mikið traust til bankakerfisins. Hlutfallið lækkar um fimm prósentustig frá í fyrra en hefur lækkað samtals um átta prósentustig síðustu tvö ár. Þar á undan hafði það hækkað jafnt og þétt frá hruni.
Borgarstjórn Reykjavíkur nýtur minnst trausts þeirra stofnana sem eru mældar í Þjóðarpúlsinum en 13% bera mikið traust til hennar. Hlutfallið lækkar um átta prósentustig frá síðustu mælingu og hefur ekki mælst lægra síðan 2008.
Spurt var:
- Hversu mikið eða lítið traust berð þú til…? – Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3.- til 12. febrúar 2023. Heildarúrtaksstærð var 1.695 og þátttökuhlutfall var 50,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.