Ríflega 44% eru hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB) en hátt í 36% andvíg. Þetta er svipað hlutfall og þegar spurt var fyrir þremur árum, en þá hafði stuðningurinn verið að aukast. Munur á hlutfalli þeirra sem eru hlynntir aðild núna og fyrir þremur árum er ekki tölfræðilega marktækur.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru frekar hlynntir því en íbúar landsbyggðarinnar að Ísland gangi í ESB. Fólk með háskólamenntun er sömuleiðis frekar hlynnt því en fólk með minni menntun að baki. Þau sem kysu Viðreisn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru helst hlynnt inngöngu Íslands í ESB og þá þau sem kysu Samfylkinguna. Þau sem kysu Framsóknarflokkinn eru helst andvíg inngöngu Íslands í ESB.
Rúmlega 71% landmanna er hlynnt veru Íslands í NATO en tæplega 12% andvíg. Þetta er svipað hlutfall og hefur áður mælst.
Fólk yfir fimmtugu og undir þrítugu er almennt hlynntara veru Íslands í NATO en fólk milli þrítugs og fimmtugs, sem er aftur líklegra en yngra og eldra fólk til að segjast hvorki hlynnt né andvígt. Þau sem kysu Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag eru síst hlynnt veru Íslands í NATO en þar á eftir koma þau sem kysu Vinstri græn og Sósíalistaflokk Íslands. Þau sem kysu stjórnarflokkana eða Framsóknarflokkinn eru helst hlynnt veru Íslands í NATO.
Nánari greininar má sjá hér