Það að Væntingavísitala Gallup sé á tilteknum tíma 100 (lárétta línan á myndinni) merkir að það eru jafn margir jákvæðir og neikvæðir svarendur. Ef hún er hærri eru fleiri jákvæðir og ef hún er lægri eru fleiri neikvæðir.
Væntingavísitala Gallup er mæld í Gallupvagninum. Í úrtakinu eru Íslendingar 18 ára og eldri af öllu landinu. Könnunin fer af stað fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og niðurstöðum skilað síðasta þriðjudag hvers mánaðar. Greiningarbreytur fyrir Væntingavísitölu Gallup eru kyn, aldur, búseta, menntun og heimilistekjur. Gögn hvers mánaðar eru vegin eftir kyni, aldri og búsetu til samsvörunar við hlutfall þjóðarinnar í viðkomandi hópum.
Væntingavísitala Gallup er byggð á fimm þáttum:
- Mati á núverandi efnahagsaðstæðum
- Væntingum til efnahagslífsins eftir 6 mánuði
- Mati á núverandi ástandi í atvinnumálum
- Væntingum til ástands í atvinnumálum eftir 6 mánuði
- Væntingum til heildartekna heimilisins eftir 6 mánuði
Fyrir hverja spurningu er deilt í fjölda jákvæðra svara með fjölda jákvæðra og neikvæðra svara. Útkoman er hlutfall sem er síðan margfaldað með 200 og þá fæst breyta sem getur tekið gildið 0-200.