Ríflega helmingur landsmanna, eða 54%, telja Ísland gera of lítið til að aðlagast loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Gallup á viðhorfi Íslendinga til umhverfis- og loftslagsmála sem Ólafur Elínarson sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup kynnti á ráðstefnu í Hörpu í dag. Ennfremur kemur fram í rannsókninni að landsmenn telja íslenska stjórnmálamenn gera of lítið til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og tæplega helmingur aðspurðra telur sig hafa séð eða upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í sveitarfélagi sínu. 27% ungs fólks á aldrinum 18-34 ára telja loftslagsbreytingar og umhverfismál vera eina af helstu áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í dag. Landsmenn gera ýmislegt til að draga sjálfir úr losun en 82% svarenda hefur flokkað sorp, 70% hafa minnkað plastnotkun og 44% hafa keypt umhverfisvænar vörur. Hlutfallslega fleiri konur en karlar hafa gert eitthvað af þessu þrennu.
Á ráðstefnunni í Hörpu í dag ávarpaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra ráðstefnugesti. Fulltrúar stofnana og fyrirtækja héldu einnig erindi um helstu áform þeirra í umhverfis- og loftslagsmálum. Meðal framsögumanna voru Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Hrönn Hrafnsdóttir frá Reykjavíkurborg, Björn Hafsteinn Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu, Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Jóna Bjarnadóttir forstöðumaður hjá Landsvirkjun, Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir hjá Landsbankanum, Guðný Rósa Þorvarðardóttir framkvæmdastjóri hjá N1, Guðni A. Jóhannesson framkvæmdastjóri Orkustofnunar og Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar. Heiður Hrund Jónsdóttir hjá Gallup stýrði fundinum.
Umhverfis- og auðlindaráðherra kom í ávarpi sínu inn á helstu áform ríkistjórnarinnar í umhverfismálum en markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Hann sagðist skynja viðhorfsbreytingu landsmanna til umhverfismála sem væri mjög jákvætt. Ennfremur lagði hann áherslu á mikilvægi samtals landsmanna og stjórnmálamanna um þessi mál.
Ólafur Elínarson sviðsstjóri Gallup sagði jafnframt í erindi sínu að þetta væri í fyrsta sinn sem Gallup mælir ítarlega viðhorf landsmanna til umhverfismála. „Við sjáum að almennt lítur fólk ekki á Ísland sem brautryðjanda á alþjóðavettvangi á sviði loftslagsmála. Ennfremur er áhugavert að sjá viðhorf neytenda til fyrirtækja en umhverfisstefna fyrirtækja skiptir landsmenn miklu máli bæði varðandi val á nýjum vinnuveitenda og viðleitni til að skapa umhverfisvænan vinnustað sem leggur áherslu á orkusparnað,“ sagði hann.
Sjávarútvegurinn hefur dregið úr losun um 44%
Fram kom í máli Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS að það væri fjárhagslega hagkvæmt að draga úr losun. „Sjávarútvegurinn hefur gert sér grein fyrir því og hefur dregið markvisst úr losun með fjárfestingu í betri skipum og nýrri tækni. Það er athyglisvert að sjá að samkvæmt könnuninni, virðast margir telja að lítill árangur hafi náðst á vettvangi sjávarútvegsins í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Góð saga sjávarútvegs í þessum efnum er því augljóslega ekki á almennu vitorði. Íslenskur sjávarútvegur hefur, fyrir sitt leyti og ein atvinnugreina hér á landi, náð markmiðum Parísarsamkomulagsins. Sjávarútvegur hefur þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 40% frá árinu 1990 og hyggst gera enn betur á komandi árum! Það er auðsýnilega verk að vinna að koma þessum góðu fréttum betur á framfæri,“ sagði hún.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar sagði í sínu erindi að það væri verkefni íslenskra stjórnvalda að standa við þau loforð sem endurspeglast í alþjóðasamningum líkt og Kyoto bókuninni og Parísarsamkomulaginu. „Það er ljóst að við þurfum að taka okkur á í umhverfismálum þar sem að losun Íslands er að aukast og því miður þurfum við að kaupa skuldbindingar til að geta staðið við loforðin.“
Meirihluti Íslendinga getur hugsað sér að kaupa rafbíl
Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, talaði um að það væri ánægjulegt að sjá í niðurstöðum könnunarinnar að helmingur Íslendinga geti hugsað sér að kaupa rafbíl. „Það er hvoru tveggja hagkvæmt og umhverfisvænt. Í þessu samhengi má líka hafa í huga að helmingur þeirra Norðmanna sem keyptu sér bíl í fyrra keypti rafbíl. Helmingur þeirra hefur sem sagt þegar gert það sem helmingur okkar er að hugsa.“
Jóna Bjarnadóttir greindi frá því í sínu erindi að á heimsvísu væri aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku eitt af stóru framlögunum til loftslagsmála. „Við höfum langa reynslu af vatnsafli og jarðvarma og erum að byrja að feta okkur áfram með vindorkuna. Síðan verður framtíðin að leiða í ljós hvort við förum að nýta aðra orkugjafa. En niðurstöður könnunarinnar benda til þess að áhugi landsmanna sé til staðar.“
Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, greindi frá því að endurnýting á heimilisúrgangi verði yfir 95% með opnun gas- og jarðgerðarstöðvar félagsins sem verður tekin í notkun árið 2019. Hann sagði að afurðir sem verða unnar úr stöðinni verða aðallega tvær, metan og jarðvegsbætir. Metanvinnsla eykst til muna og mun heildarframleiðslan frá stöðinni og urðunarstaðnum duga til að knýja um 7-8.000 metanbíla.