Traust eykst töluvert til forsetaembættisins, heilbrigðiskerfisins, lögreglunnar og dómskerfisins samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Traust til Alþingis eykst einnig aðeins og traust til embættis umboðsmanns skuldara minnkar frá síðustu mælingu.
Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er eins og hingað til Landhelgisgæslan en 92% þeirra sem taka afstöðu bera mikið traust til hennar. Lögreglan er eins og áður í öðru sæti en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til hennar hækkar mikið frá því í fyrra. Þá báru 74% mikið traust til lögreglunnar og hafði hlutfallið þá ekki mælst lægra í tíu ár. Nú bera hins vegar 85% mikið traust til lögreglunnar, en þegar mælingin var gerð hafði lögreglan verið mikið í fjölmiðlum í tengslum við rannsókn á sakamáli sem skók þjóðina. Í þriðja sæti er embætti forseta Íslands. Ekki aðeins færist það upp um eitt sæti heldur fjölgar þeim sem segjast bera mikið traust til embættisins um heil 26 prósentustig frá því í fyrra en hlutfallið fer úr 57% í 83%.
Um 76% bera mikið traust til Háskóla Íslands en í fyrra mældist hlutfallið 72%. Þar á eftir kemur heilbrigðiskerfið en 62% bera mikið traust til þess. Það er mun hærra hlutfall en í fyrra þegar 46% báru mikið traust til heilbrigðiskerfisins en svipað hlutfall og síðustu tvö ár þar á undan því traust til heilbrigðiskerfisins mældist talsvert lægra í fyrra en árin á undan. Slétt 51% ber mikið traust til umboðsmanns Alþingis, helmingur þeirra sem taka afstöðu ber mikið traust til ríkissaksóknara og 48% til ríkissáttasemjara. Um 43% bera mikið traust til dómskerfisins. Það er talsvert hærra hlutfall en í fyrra þegar 32% sögðust bera mikið traust til þess en sama hlutfall og síðustu tvö ár þar á undan því traust til dómskerfisins mældist nokkuð lægra í fyrra en árin á undan.
Um 38% bera mikið traust til þjóðkirkjunnar og 33% til Seðlabankans en í fyrra báru 29% mikið traust til Seðlabankans. Þá bera 22% mikið traust til embættis umboðsmanns skuldara en í fyrra var hlutfallið 28%. Um 22% bera mikið traust til Alþingis, en í fyrra var hlutfallið 17%. Um 19% bera mikið traust til borgarstjórnar, sama hlutfall til Fjármálaeftirlitsins og 14% til bankakerfisins.
Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til...? - stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 9. til 21. febrúar 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.411 og þátttökuhlutfall var 59,8%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.